Hallsteinn Hinriksson hefði orðið 120 ára í dag

Hallsteinn Hinriksson stofnandi FH hefði orðið 120 ára í dag 2. febrúar.
Hallsteinn (f. 2. febrúar 1904, d. 10. október 1974) var árið 1929 ráðinn leikfimiþjálfari við Barnaskóla Hafnarfjarðar og Flensborgarskóla. Með komu hans til Hafnarfjarðar urðu þáttaskil í íþróttasögu bæjarins, en Hallsteinn er sá maður sem lagt hefur hvað mest af mörkum til hafnfirskra íþróttamála fyrr og síðar. Hann hafði forgöngu um stofnun FH haustið 1929, sem er elsta starfandi íþróttafélag Hafnarfjarðar og var þjálfari hjá félaginu alveg frá upphafi til æviloka. Hann sat mörg ár í stjórn félagsins, lengst af sem varaformaður og var fulltrúi þess í stjórnum ÍBH og HSÍ, auk þess sem hann átti um árabil sæti í íþróttaráði Hafnarfjarðar. Hann var afreksmaður í frjálsum íþróttum og margfaldur Íslandsmeistari. Árin 1958 -62 var hann landsliðsþjálfari í handknattleik, auk þess sem hann þjálfaði meistaraflokka félagsins í fjölda ára.
Hallsteinn var árið 1939 gerður að heiðursfélaga í FH á 10 ára afmæli félagsins og síðar heiðursformaður þess. Hann var einnig sæmdur Fálkaorðunni fyrir þátttöku og störf sín að íþróttamálum.

Hallsteinn Hinriksson.

Aðrar fréttir