Haukar-FH í kvöld á Ásvöllum – Upphitun

Ingimar hitar upp fyrir stórleikinn í kvöld.
Haukar-FH kl. 20:00.

 

Þetta tímabil hefur farið svona líka ljómandi af stað. FH afgreiddu erfiða leiki í Evrópu, flengdu Framara og unnu svo jafnan og erfiðan leik gegn strákunum úr Mosfellsbæ. Hvað er næst á dagskrá: Jú alveg rétt. Nágrannarnir, hitt liðið í bænum, Haukar.

Það er ennþá nokkrum spurningum ósvarað hvað varðar Haukaliðinu. Á undirbúningstímabilinu voru þeir með hálft liðið meitt upp í stúku, það vantar ennþá stóra pósta í liðið og þjálfarinn sagði fyrir tímabilið að þeir yrðu í basli til að byrja með. En þeir fengu líka stærsta bitann á leikmannamarkaðnum til sín, silfurstrákinn Björgvin Páll Gústavson.

Rauðu mennirnir litu ekkert sérstaklega út í fyrstu umferðinni þegar þeir rétt mörðu nýliða ÍR, en tóku sig svo til og snýttu ÍBV í leik tvö. Leikurinn var í raun stórfurðulegur, Haukar mættu til leiks tíu mínútum eftir að leikurinn hófst og voru þá komnir sex mörkum undir. En eftir að Gunnar þjálfari tók nettan hárblásara í fyrsta leikhléi sínu þá rúlluðu Ásvellingar yfir peyjana og unnu að lokum með sex mörkum. Aðalsmerki Haukana í þessum tveimur leikjum hefur verið frábær varnarleikur, sem hjálpaði landsliðsmarkverðinum að gera sitt.

Fyrirliðinn skorar hér úr einu af sínu þekktu gólfskotum.

Það verður hrikalega gaman að sjá þann varnaleik spreyta sig gegn FH sókninni. FH-inga vantar ennþá tvo bita í sóknarlínuna, Gísla Þorgeir og Jóhann Birgi sem nálgast óðfluga leikform en litlar sem engar líkur eru á að þeir spili leikinn. Í fjarveru þeirra hafa Ísak, Ási og Einar Rafn borið upp sóknarleikinn, ásamt því að Óðinn er að tikka inn sínum baneitruðu hraðaupphlaupsmörkum. Að FH sé komið með 75 mörk skoruð eftir tvo leiki er nátturulega fáranlegt. Hins vegar hefur varnarleikurinn ekki verið jafn góður og við vorum farin að venjast undir lok síðasta tímabils en hann hrekkur vonandi í gang í þessum leik.

Það eru þrjú lið sem hafa unnið báða leiki sína, Hafnarfjarðarliðin eru tvö þeirra. Það eru tveir leikmenn búnir að fá tíur frá strákunum í Seinni bylgjunni, Björgvin Páll og Ísak „Herra FH“ Rafnsson. Það er bara ein vagga handbolta á Íslandi, Hafnarfjörðurinn. Það er það sem þessi leikur snýst um, stoltið, montréttinn og að taka toppsætið í deildinni. Þetta er miklu meira en bara einn leikur, það vita allir í bænum. Við ætlum öll að mæta í hvítu og styðja strákanna okkar til sigurs, sækja tvö stig og halda áfram þessu frábæra „rönni“ sem þeir eru á.

VIÐ ERUM FH!

Aðrar fréttir