Jón Páll Pálmason með pistil fyrir leikinn í kvöld

Í minningunni er maí einn af hápunktum ársins frá þeim tíma er ég bjó í Kvíholtinu. Það var á þeim tíma sem hægt var að hjóla í Fjarðarkaup á föstudögum og fá að “smakka”, Íslandsmótið í fótbolta hófst, það var graslykt í loftinu og ég hugsaði með tilhlökkun til þess að fá að spila á aðalvellinum í Íslandsmótinu sjálfur. Við fengum á þeim tíma að spila einn leik á ári á vellinum. Unnum þá alla. Ég reyndar hjólaði oft á kvöldin og lék mér á aðallvellinum, einn eða með vinum mínum. Þeir tímar eru líklega liðnir enda óþarfi fyrir krakka að hjóla í 30 mínútur til að komast á fótboltavöll þegar hann er líklega í 5 mínútna fjarlægð í formi sparkvalla. Ég er löngu hættur þiggja smakk út í búð, þarf að hugsa um línurnar. Ég læt mig ekki dreyma um að leika mér í fótbolta á Kaplakrikavelli og graslyktin hefur á flestum völlum vikið fyrir svartri gúmmíkúlulykt sem er ekkert sérstaklega góð. En það sem breytist ekki er að það er fiðringur fyrir því að fylgjast með FH liðinu sem spilar að sjálfsögðu á iðagrænum vellyktandi grasvelli, félagið heldur háum standard. FH liðið hefur tekið töluverðum breytingum í vetur. Nýjir þjálfarar, nokkrir nýjir leikmenn ásamt því sem nokkrir ungir og áhugaverðir leikmenn hafa gert vart við sig. Með þessum nýju góðu mönnum eru svo húsgögn sem spilað hafa lykilhlutvert bæði innan vallar og utan undanfarin 15 ár. Það er verið að byggja upp nýtt lið á virkilega sterkum grunni. Það er von mín og trú að liðið eigi eftir að smella saman sem allra fyrst því væntingarnar eru frekar einfaldar, við tökum ekki þátt öðruvísi en að vilja taka titilinn. Ég vona innilega að FH-ingar mæti á völlinn og styðji liðið. Ég veit að umgjörðin, sem batnað hefur til muna síðustu ár, verður ennþá betri í ár en áður. Það er verkefni leikmanna, stuðningsmanna og starfsmanna félagsins að gera ferð á FH-leik í Kaplakrika eftirminnilega fyrir okkur öll. Ég vona að sumarið verði gæfuríkt fyrir alla FH-inga innan vallar sem utan.

 

Mbk, Jón Páll

Aðrar fréttir