Keflavíkur-Björn í eldlínunni

Keflavíkur-Björn í eldlínunni

A-liðin léku á undan. FH-ingar léku undan vindi í fyrri hálfleik og byrjuðu leikinn nokkuð vel. Kristján Gauti átti skalla í slá og Andri Magnússon fékk ágætis færi en náði ekki að hemja boltann eftir fyrirgjöf þegar hann var á auðum sjó á fjærstöng. FH-ingar voru mun meira með boltann en náðu ekki að opna þétta vörn heimamanna. Rétt fyrir leikhlé náðu svo Keflvíkingar forystu og leiddu 1-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var svipaður þeim fyrri, FH-ingar meira með boltann en ekki nógu markvissir í sóknarleiknum. Í nokkur skipti skall þó hurð nærri hælum; Andri Gísla fékk dauðafæri en markvörðurinn varði vel og Keflvíkingar björguðu á línu. En FH-strákarnir gáfust ekki upp á tveimur mínútum fyrir leikslok eftir mikinn atgang í vítateig Keflvíkinga kom jöfnunarmarkið. Emil Atlason átti góða fyrirgjöf á fjærstöng þar sem Björn Berg Bryde stökk eins og lax í straumi og hamraði boltann í þaknetið með góðum skalla við gífurlegan fögnuð. Úrslitin 1-1.

Þó svo að við hefðum að sjálfsögðu viljað vinna þá var stigið kærkomið úr því sem komið var. FH-liðið á að geta spilað mun betur. Við vorum meira með boltann en spilið þarf að vera markvissara og beittara og boltalaus hreyfing betri. Eins fannst mér við mega vera miklu grimmari og fastari. En við eigum annan leik við þá á morgun í bikarnum og þá verðum við einfaldlega að bretta upp ermarnar og sýna okkar besta leik.

Leikur B-liðanna var einnig æsispennandi. Í B-liðakeppninni er leyfilegt að nota þá varamenn í A-leiknum sem ekki léku í fyrri hálfleik og því léku strákar eins og Bjössi Berg, Kári, Einar Karl og Emil Atla hluta af B-leiknum. Reyndar lék Emil Atla allan leikinn.

FH-ingar byrjuðu betur og Orri Ómarsson náði forystunni eftir u.þ.b. stundarfjórðung með kraftmiklu marki. Um 10 mínútum síðar var brotið á hinum húðflúraða Sigmundi Sigurgeirssyni innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Það var enginn annar en hetjan úr A-leiknum, Björn Berg sem steig fram og setti spyrnuna örugglega í netið. 0-2 og vænleg staða fyrir FH. En Adam var ekki lengi í Paradís. Stuttu síðar fékk téður Björn rauða spjaldið fyrir að brjóta á sóknarmanni Keflvíkinga sem var að sleppa í gegn og rétt fyrir leikhlé minnkuðu heimamenn muninn með góðu skoti.

Í seinni hálfleik börðust FH-strákarnir grimmilega einum færri. Keflvíkingar sóttu mun meira en FH-vörnin hélt vel og í markinu var Sigurður Ingiberg mjög öruggur í öllum sínum aðgerðum. FH-ingar fengu 2-3 góð færi úr skyndisóknum til að gera út um leikinn en voru miklir klaufar að nýta þau ekki. En í þann mund sem feita konana var að ræskja sig og fara að þenja raddböndin sluppu Keflvíkingar í gegnum nálaraugað og settu jöfnunarmarkið. FH-ingar tóku miðju og dómarinn flautaði af. Hrikalega svekkjandi en svona er fótboltinn. Rétt eins og í A-liðunum eru FH og Keflavík að berjast um efsta sætið og þar eigum við tvö stig á þá bláklæddu þ.a. við erum enn í fínni stöðu og ég hef trú á að strákarnir vinni riðilinn.

Aðrar fréttir