Nýtt knattspyrnuár, nýjar áskoranir!

Vetrarstarf yngri flokka knattspyrnudeildar FH er nú komið í fullan gang í öllum flokkum. Æfingar eru nú hafnar í öllum flokkum samkvæmt æfingatöflu og framundan er spennandi og skemmtilegt ár með nýjum áskorunum og vonandi glæstum sigrum.

Barna- og unglingaráð (BUR) hefur nú gengið frá samningum við 40 þjálfara um þjálfun á tímabilinu. Eins og undanfarin ár hefur FH á að skipa þjálfurum með mikla reynslu og menntun á sviði þjálfunar og óhætt er að fullyrða að fá knattspyrnufélög á landinu geta státað af jafn öflugum þjálfarahópi í barna- og unglingstarfi, og jafnvel þó víðar væri leitað. Kjarninn í þjálfarhópnum hefur þjálfað fyrir félagið um árabil en nýir þjálfarar hafa auk þess bæst í hópinn til að efla starfið enn frekar. Auk eru margir ungir og efnilegir FH-ingar til aðstoðar við þjálfun yngstu flokkanna og margir þeirra eru efni í framtíðarþjálfara hjá félaginu. Yfirþjálfari BUR er Árni Freyr Guðnason.

Afreksþjálfun efld

Þá hefur knattspyrnudeild FH ráðið Hlyn Eiríksson til að styðja við afreksþjálfun hjá félaginu. Hlynur, sem er FH-ingur inn að beini, býr yfir víðtækri þekkingu og reynslu í knattspyrnuþjálfun bæði hérlendis og erlendis og mun hann m.a. koma inn á æfingar hjá yngri flokkum félagins þar sem þjálfarar og iðkendu munu njóta tilsagnar hans. Þá verður styrktarþjálfun með sama hætti og undanfarin ár, auk þess sem markmannsþjálfun er komin á fullan skrið.

Þær breytingar hafa orðið á skipulagi knattspyrnuþjálfunar hjá FH að 2. flokkur karla og kvenna heyrir nú undir rekstur BUR en eru ekki reknir samhliða meistarflokkum félagins eins og áður hefur verið. Með þessu er vonast til að efla þjálfun og félagsstarf í flokknum enn frekar, í góðri samvinnu við þjálfara og forsvarsmenn meistaraflokka karla og kvenna.

Við þurfum betri aðstöðu!

Skráðum iðkendum í knattspyrnu hjá FH hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum og það hefur varla farið framhjá neinum sem á annað borð fylgjast með knattspyrnustarfinu hjá FH að það er verulega farið að þrengja um aðstöðu til æfinga og keppni í Kaplakrika. Af þeim sökum hefur í auknum mæli þurft að skipta upp flokkum og jafnvel dæmi um að hópar innan sama flokks æfi á mismunandi tímum. Þá hefur FH þurft að leita á náðir knattspyrnufélaga í nágrannasveitarfélögum um æfingaaðstöðu vegna aðstöðuskorts í Kaplakrika. Eins og foreldrar og forráðamenn iðkenda í 2., 3. og 4. flokki hafa væntanlega orðið varir við, hafa þessir flokkar hafa að undanförnu æft einu sinn í viku á ÍR – vellinum í Seljahverfi í Reykjavík. Hinsvegar var ekki möguleiki að fá æfingatíma hjá ÍR fyrir alla þessa flokka nema út október og því þurfa nú einhverjir þeirra að æfa á knattspyrnuvellinum á Álftanesi. Skiljanlega eru örar breytingar á æfingastað og æfingatíma ekki æskilegar og er það von BUR að varanleg lausn fáist á þessum málum sem allra fyrst. Forsvarsmenn FH hafa undanfarin ár átt í viðræðum við Hafnarfjarðarbæ um úrbætur í þessum og hefur BUR af megni reynt að leggja forsvarsmönnum FH lið í baráttunni.

Nýjar keppnistreyjur

Eins fram hefur komið eru nýjar keppnistreyjur innifaldar í æfingagjöldum ársins. Rafrænir skráningarlistar voru settir inn á Facebook-síður allra flokka fyrr í haust og þrátt fyrir smávægilega tæknilega erfiðlega í upphafi voru skráningar mjög góðar og hefur verið lögð í pöntun hjá umboðsaðila Adidas á Íslandi. Treyjurnar verða síðan afhentar um leið og þær berast, sem vonandi verður fyrir lok ársins. Fyrirkomulag afhendinga verður rækilega auglýst síðar.

Flottir fyrirlestrar

BUR, ásamt handboltadeild FH, mun í vetur standa fyrir fyrirlestrum fyrir alla iðkendur yngri flokka þar sem fjallað verður um eitt og annað sem tengist þjálfun og heilbrigðu líferni, s.s. mataræði, markmiðasetningu, vináttu og virðingu og styrkingu. Markmiðið er að börn og unglingar fái rétt skilaboð sem þau tileinka sér á tímum þar sem upplýsingaflæði er endalaust. Sigurjón Þórðarsson, markþjálfi, reið á vaðið í október og fjallaði um liðsanda og hópefli og í nóvember ætlar Bergsveinn Ólafsson, hinn kunni varnarjaxl í FH, að fjalla um mataræði í íþróttum. Aðrir fyrirlestrar verða rækilega auglýstir síðar.

Að lokum hvetur BUR alla forráðamenn til að skrá börn sín í NORA í gegnum Mínar síður hjá Hafnarfjarðarbæ og minnir á að óskráðir iðkendur hafa ekki heimild til að taka þá í leikjum eða mótum fyrir hönd FH.

Með von um gott samstarf og skemmtilegt og árangursríkt fótboltaár. Áfram FH!

Barna- og unglingaráð

 

Aðrar fréttir