Rússneski björninn lagður í fyrri glímu einvígisins | FH 32 – 27 St. Pétursborg HC

Strákarnir okkar eru í kjörstöðu í einvígi sínu gegn St. Pétursborg HC í 2. umferð EHF-bikarsins, en fyrri leikur liðanna fór fram í Krikanum í gær. FH-liðið fór þar með öruggan 5 marka sigur af hólmi, 32-27, eftir að hafa verið með yfirhöndina lengst af í leiknum.

Ásbjörn átti góðan leik á miðjunni að vanda / Mynd: Jói Long

Leikurinn var í járnum til að byrja með og var jafnt á flestum tölum fyrstu 20 mínútur leiksins. Lið St. Pétursborgar er mikið skyttulið, með hávaxna og sterka leikmenn sem vel geta skotið á markið. Sérlega var það hægri skytta Rússanna, drengur að nafni Dmitrii Kiselev, sem gerði okkar mönnum erfitt fyrir framan af leik. Hann fór fyrir sínu liði og tók það FH-liðið nokkra stund að hemja hann.

Eins og áður sagði var jafnt á flestum tölum í fyrri hálfleik, eða allt fram að gríðargóðum kafla FH-liðsins sem hófst á 22. mínútu leiksins og lagði grunninn að góðri stöðu okkar í hálfleik. Í stöðunni 10-11 fyrir St. Pétursborg settu FH-ingar í fluggírinn, skoruðu 4 mörk í röð og voru skyndilega komnir með þriggja marka forskot, 14-11. Þá forystu létu FH-ingar ekki af hendi áður en flautað var til hálfleiks, en þá var staðan einmitt 17-14 FH í vil.

Byrjun síðari hálfleiks var keimlík því sem sést hafði lengst af í fyrri hálfleik. Liðin skiptust á að skora og fyrir vikið hélt FH-liðið yfirhöndinni. Við náðum 5 marka forskoti í fyrsta sinn í leiknum þegar um 8 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, 21-16, en í kjölfarið tóku Rússarnir leikhlé sem að þeir virðast hafa nýtt sér vel. Eftir það tóku þeir í það minnsta hressilega við sér, og minnkuðu muninn aftur niður í tvö mörk.

Óðinn Þór að loka leiknum með 7. marki sínu og síðasta marki leiksins / Mynd: Jói Long

Strákarnir létu það hins vegar ekkert á sig fá. Þeir héldu ávallt yfirhöndinni, og þótt að stöku áhlaup Rússanna hafi lofað góðu (fyrir þá) þá hélt FH-liðið muninum alltaf á bilinu 3-5 mörk. Satt best að segja var sigurinn að lokum afar sannfærandi af hálfu FH-liðsins, sem átti í heildina afar góðan dag. Lokatölur 32-27 FH í vil, og förum við því til Rússlands um næstu helgi með gott veganesti.

Margt má taka jákvætt út úr leik FH-liðsins frá því í gær. Fyrir það fyrsta ber að nefna hversu vel stilltir strákarnir mættu til leiks. Andstæðingurinn í gær, næstbesta lið Rússlands með stóra stráka og landsliðsmenn á sínum snærum, var ekki af verri endanum. Okkar menn þurftu því að mæta til leiks af mikilli grimmd, og það gerðu þeir.

Menn komast vanalega ekki mikið áleiðis þegar Ísak Rafnsson stendur andspænis þeim / Mynd: Jói Long

Varnarleikurinn lengst af var mjög góður og sérlega hreyfanlegur, sem hentaði Rússunum illa þar sem að þeir voru ekki nærri því jafn fljótir á fótunum og lið FH. FH-ingar voru ef til vill nokkrum sentimetrum lægri að meðaltali en Rússarnir, en hikuðu ekki við að ganga út í skyttur þeirra af hörku. Nákvæmlega það sem þurfti til.

Við urðum fyrir áfalli þegar 4 mínútur voru liðnar af leiknum, en þá meiddist Jóhann Karl Reynisson á læri og varð að hætta leik. Jóhann Karl, sem hefur átt afar gott tímabil það sem af er, varð líklega fyrir tognun og verður því frá í einhverjar vikur. Það sýnir styrk og breidd FH-liðsins, að varnarleikur þess leið ekki um of fyrir það að missa lykilmann á borð við Jóhann Karl út úr vörninni. Maður kom í manns stað, og í liði FH eru einungis alvöru menn.

Ágúst Elí átti stóran þátt í sigrinum í gær / Mynd: Jói Long

Ágúst Elí átti mjög góðan leik á bak við varnarvegg FH-liðsins, og hans 21 varði bolti lagði góðan grunn að því að halda gestunum í góðri fjarlægð. Það kom þó of oft fyrir, ef eitthvað má tala um að hafi vantað, að Rússarnir hirtu fráköstin eftir vörslur Ágústar en ekki liðsmenn FH. Það endaði oftar en ekki með marki, sem ég veit að strákarnir eru eflaust ekki sáttir með.

Flestir geyma og taka mat úr ísskápum, en FH-ingar vilja frekar mata Ísskápinn. 8 mörk af línunni í gær, ágætis uppskera. / Mynd: Jói Long

Sóknarleikur liðsins gekk almennt vel og þá sérstaklega línuspilið, þar sem Ágúst Birgisson lék við hvurn sinn fingur. Góðum, hröðum og skynsömum sóknarlotum FH-liðsins lauk oft á tíðum með frábærri línusendingu á Ísskápinn, sem nýtti færin sín af mikilli snilld í gær. Allir okkar útileikmenn eru með gott auga fyrir línuspili, og Ágúst þakkaði kærlega fyrir sig.

Einar Rafn tók gott frumkvæði í skyttunni, skoraði mikilvæg mörk fyrir utan auk þess sem að hann skoraði 3 dónaleg mörk úr vítum. Aumingja Shymanski í markinu. Og talandi um dónaskap – ein af stoðsendingum vetrarins kom í gær þegar Einar Rafn setti boltann einhvern veginn aftur fyrir sig og varnarmanninn Dmitry Bogdanov (sjá mynd), beint á línuna til Ágústar sem skoraði. Geggjaðir.

Baneitruð sending, Einar Rafn. Baneitruð. / Mynd: Jói Long

Allt í allt, flott frammistaða hjá FH-liðinu sem hefði eflaust tekið 5 marka forskoti fegins hendi fyrir fram í þessu verkefni. Nú er hins vegar aðeins hálfleikur, því eftir er leikur úti í St. Pétursborg um næstu helgi. Þar þurfa strákarnir að eiga jafn góðan leik, ef ekki betri, til að klára dæmið á erfiðum útivelli. Treystum við þeim fullkomlega til þess!

Í millitíðinni er hins vegar hörkuleikur framundan við Víkinga í Fossvoginum, en hann fer fram á miðvikudag – nánar tiltekið 11. október. Þangað ætlum við FH-ingar að flykkjast og hjálpa okkar mönnum að verja toppsætið í deildinni. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 8/3, Ágúst Birgisson 8, Óðinn Þór Ríkharðsson 7, Gísli Þorgeir Kristjánsson 4, Ásbjörn Friðriksson 4, Arnar Freyr Ársælsson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 21.

Aðrar fréttir