Sam Tillen, Ingimundur og Daði til FH

Sam Tillen, Ingimundur og Daði til FH

Ansi mikið er að frétta af leikmannamálum hjá meistaraflokki FH í knattspyrnu og hafa Íslandsmeistararnir styrkt sig á undanförnum dögum en einnig horft á eftir fyrirliða liðsins á liðnu tímabili.

Ljóst er að Gunnleifur V. Gunnleifsson, landsliðsmarkvörður, mun yfirgefa herbúðir Íslandsmeistara FH í knattspyrnu og ganga til liðs við Breiðablik. Gunnleifur hefur leikið með FH síðustu þrjú sumur og var fyrirliði liðsins  í sumar. Gunnleifi er þakkað sitt framlag síðustu ár og góðar stundir í Krikanum og óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.

FH-ingar hafa aftur á móti endurheimt markvörðinn snjalla, Daða Lárusson, sem kemur frá Haukum. Daði er öllum FH-ingum að góðu kunnur enda var hann lykilmaður í meistaraliði FH í fjölmörg ár, hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari með meistaraflokki og einu sinni bikarmeistari. Hann er uppalinn FH-ingur og á að baki 3 A-landsleiki. Fyrir hjá FH er svo auðvitað hinn öflugi markvörður Róbert Örn Óskarsson sem lék einn leik í sumar í Pepsi-deild karla en hefur áður varið mark ÍR og BÍ/Bolungarvíkur af stakri prýði. 

Í gær gengu svo tveir öflugir leikmenn til viðbótar í raðir FH. Ingimundur Níels Óskarsson kom frá Fylki og Sam Tillen frá Fram. Ingimundur Níels hefur verið lykilmaður hjá Fylki síðustu tímabil og skoraði 10 mörk í sumar auk sex stoðsendinga. Sam Tillen hefur leikið fyrir Fram frá árinu 2007. Áður lék hann með Brentford á Englandi en hann er alinn upp í knattspyrnuakademíu Chelsea. Morgunljóst að mikill fengur er í þeim Ingimundi og Tillen og þeir boðnir velkomnir til félagsins.

Við þetta má bæta að þeir Einar Karl Ingvarsson, Emil Pálsson og Hólmar Örn Rúnarsson hafa allir skrifað undir nýja samninga við félagið. Einar Karl semur til þriggja ára, Emil til tveggja og Hólmar til eins árs.  

Aðrar fréttir