Sanngjarn sigur á Safamýrarpiltum í gærkvöldi

Framarar komu í heimsókn í Krikann og fóru svekktir heim í gærkvöldi, en leiknum lauk 29-27 fyrir okkar mönnum. Fógetinn fór fyrir FH-liðinu í markaskorun, með átta mörk og Arnar Freyr skoraði sjö. Í rammanum var Birkir Fannar eins og klettur, varði eina fimmtán bolta.

Framarar voru fyrstir til að skora mark í leiknum en þeir komust ekki aftur yfir í honum. Okkar mönnum tókst að komast í 2-1 og svo var jafnt á öllum tölum næstu mínútur þar á eftir. Þegar tíu mínútur voru búnar komust FH-ingar í 7-5 og þá komu fimm mínútur án marks hjá báðum liðum.

Fógetanum héldu engin bönd í gærkvöldi / Mynd: Jói Long

Þegar staðan var 10-10 og tuttugu og fimm mínútur voru búnar var komið að ákaflega frumlegri dómgæslu, en Aron Gauti Óskarsson hjá Fram og Einar Rafn Eiðsson voru reknir út af fyrir eitthvað samstuð og svo fékk bekkur FH tvær. Þá steig Jóhann nokkur Birgir upp og skoraði tvö mörk, bæði úr ansi erfiðum færum. Framarar náðu að jafna en þá hrukku FH-ingar í gír og skoruðu fjögur mörk á móti einu hjá Fram á síðustu tveimur mínútunum og fóru inn í hálfleik 16-13.

Í byrjun seinni hálfleiks fór varnarleikurinn hjá FH-ingum virkilega að smella saman, og áður en áhorfendur vissu af var staðan 21-15. Birkir Fannar varði eins og berserkur næstu mínútur, munurinn var sex mörk lengst af.

Arnar Freyr reyndist sínu gamla liði erfiður, að venju / Mynd: Jói Long

Þegar það voru fimm mínútur eftir skoraði Ási tuttugusta og níunda mark FH, sem reyndist vera síðasta mark heimamanna. Það var ekki frá því að það færi aðeins um stúkuna þegar Framarar hófu að saxa á forustuna. Þeirra mikilvægasti maður á þessum kafla var markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson sem var einfaldlega frábær í lokin. Þegar mínúta var eftir var Ágúst Birgisson rekinn útaf en Birkir varði mikilvægan bolta og okkar menn fóru í langa sókn og létu tímann líða. Ægir Hrafn náði minnka muninn í tvö mörk þegar sekúnda var eftir, og þar við sat. Fyrsti sigur tímabilsins staðreynd.

Úrslitin gáfu ekki endilega rétta mynd af leiknum. Okkar menn voru skrefinu á undan og megnið af seinni hálfleiknum voru þeir allsráðandi á vellinum. Þeir slepptu vissulega takinu undir lokin og liðið mun læra af því. En þetta liðið getur spilað hrikalega skemmtilegan handbolta og mun bara vaxa í vetur. Næsti leikur er gegn Gróttu á sunnudaginn eftir vikur, meira um hann þegar nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 8/2, Arnar Freyr Ársælsson 7, Birgir Már Birgisson 5, Jóhann Birgir Ingvarsson 4, Einar Rafn Eiðsson 3, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 1, Ágúst Birgisson 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 15.

Aðrar fréttir