Seiglusigur hjá stelpunum okkar í gærkvöldi

FH-stelpur tóku á móti ÍR úr Breiðholti í Kaplakrika í gærkvöldi. Síðustu leikir þessarra liða hafa verið dúndurspennandi og oftast endað með aðeins 1 marks mun, til dæmis þegar Diljá Sigurðardóttir skoraði flautumark sem kom FH í 8 liða úrslit Coca Cola bikarsins á síðustu leiktíð.

Leikurinn byrjaði á mörgum sóknarmistökum báðum megin og var lítið skorað fyrstu mínúturnar. FH-stelpur komust þó 4 mörkum yfir undir miðjan fyrri hálfleik en misstu það niður síðustu mínúturnar og hálfleikstölur reyndust vera 9-9 þar sem markverðirnir báðum megin fóru á kostum og vörðu skot eftir skot. ÍR-stelpur áttu hins vegar auðveldara með að koma boltanum í netið þessar síðustu mínútur fyrri hálfleiks.

Britney steig svo sannarlega upp þegar á þurfti að halda / Mynd: Brynja T.

Seinni hálfleikur byrjaði mjög rólega hjá FH-stelpum og virtist allt ætla að vera stöngin út hjá þeim, en á meðan keyrðu ÍR-stelpur á þær og skoruðu mark eftir mark. Á þeim kafla komust þær mest 5 mörkum yfir. En þá var nóg komið og Dröfn Haraldsdóttir skellti í lás, vörnin þjappaði sér betur saman með Ragnheiði Tómasdóttur í framlínu og Britney Cots fór að dúndra á markið. FH-stelpur náðu að jafna metin í 19-19 eftir rúmlega hálfan seinni hálfleik og stuttu seinna voru FH stelpur komnar í tveggja marka forystu, 21-19. FH stelpur kláruðu leikinn sterkt og endaði leikurinn með þriggja marka sigri FH, 25-22.

FH-stelpur sýndu frábæran karakter í kvöld með því að koma til baka og ná að landa þessum sigri og ekki draga sig niður þrátt fyrir nokkur mistök og að lenda undir í seinni hálfleik. Á endandum þurfti ekki meira en smá seiglu og að núllstilla sig og þjappa sér saman, en við það fór boltinn að rúlla – eða réttara sagt í netið.

Dröfn fór einfaldlega á kostum í rammanum / Mynd: Brynja T.

Dröfn Haraldsdóttir fór algjörlega á kostum í kvöld og á köflum var ómögulegt að koma boltanum framhjá henni. Hún endaði með 21 bolta varða sem er rúmlega 48% markvarsla og var réttilega valin maður leiksins.

Næsti leikur stelpnanna okkar er á laugardaginn næsta, 26. október, en þær fara þá í Dalhús og mæta Fjölni. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Kristín Þóra

Mörk FH: Fanney Þóra Þórsdóttir 8, Britney Cots 5, Ragnheiður Tómasdóttir 4, Sylvía Björt Blöndal 3, Andrea Valdimarsdóttir 1, Birna Íris Helgadóttir 1, Arndís Sara Þórsdóttir 1, Diljá Sigurðardóttir 1, Emilía Ósk Steinarsdóttir 1.
Varin skot: Dröfn Haraldsdóttir 21.

Aðrar fréttir