Sér fyrir endann á aðstöðuleysi í Kaplakrika

Sér fyrir endann á aðstöðuleysi í Kaplakrika

 

Í dag var stigið stórt gæfuspor í aðstöðumálum iðkenda í Kaplakrika þegar Hafnarfjarðarbær og Fimleikafélag Hafnarfjarðar gerðu með sér rammasamkomulag sem tryggir að Knatthús FH rísi í Kaplakrika á fyrri hluta næsta árs en framkvæmdir hefjist á næstu vikum.

 

FH mun byggja og eiga húsið en Hafnarfjarðarbær kaupir eldri knatthús FH af félaginu auk íþróttahús félagsins í Kaplakrika. Hafnarfjarðarbær   greiðir 790 milljónir fyrir byggingarnar en samhliða verður gengið frá heildareignaskiptasamningi um eignirnar sem hafa verið í sameign FH og bæjarins. FH skuldbindur sig til þess að byggja knatthús í staðinn.

 

Með því að FH byggi húsið ber félagið ábyrgð á að kostnaður bæjarsjóðs verði ekki meiri en áætlað er og FH-ingar nýta fjarmuni við sölu eigna til uppbyggingar á svæðinu. Þannig sparar bærinn yfir 300 milljónir, knatthúsið verður tilbúið fyrr og það sér fyrir endann á erfiðu aðstöðuleysi sem félagið hefur átt við að etja í mörg ár.

 

Það er okkur FH-ingum mikið fagnaðarefni hvað bæjaryfirvöld hafa tekið ábyrga afstöðu og hugsað í lausnum með félaginu til þess að aðstöðuvandinn leysist og heyri fljótt sögunni til. Þetta er hagkvæmasta leiðin við lausn vandans, FH nýtir eignir sínar til að styrkja starfið og Hafnarfjarðarbær hugsar ábyrgt um fjármuni bæjarbúa.

Aðrar fréttir