Stálin stinn mættust og skildu jöfn

Það var ljóst strax og rimman hófst að liðin gerðu sér bæði grein fyrir því að um mikilvægan leik væri að ræða. Leikurinn var í byrjun hraður og langar sóknir ekki á dagskrá. FH-stelpur byrjuðu þó betur og fór þar fremst (þó öftust) markvörðurinn Ástríður Scheving sem varði vel með öfluga vörn fyrir framan sig.

Í stöðunni 6-2 tók Ómar Örn þjálfari Fylkis sitt fyrsta leikhlé, væntanlega til að hvetja sínar stelpur til að taka þátt í leiknum. Það svínvirkaði enda var Roland tilneyddur til að taka sitt fyrsta leikhlé skömmu síðar þegar Fylkisstelpur höfðu jafnað leikinn 6-6 þrátt fyrir að vera einni færri. Baráttan var komin á fullt og stuðningsmenn beggja liða farnir að hvetja sín lið áfram af miklum krafti.

Fylkisstelpur réðu lítið við Anítu í gærkvöldi / Mynd: Brynja T.

Fylkisvörnin var föst fyrir það sem eftir lifði hálfleiks og gerði sig einungis sig seka um að gleyma Anítu Theodórs á línunni sem að FH-stelpurnar nýttu sér í gríð og erg.

Undir lokin á fyrri hálfleik fékk Fanney Þóra tvær, þar næst rautt, og svo að lokum blátt, fyrir kjaft. Ég er búinn að spyrja þónokkra hvað hún sagði, þetta er dálítið eins og hvísluleikur, það segir enginn það sama. Fylkisliðið gat ekki nýtt sér liðsmuninn fyrir leikhlé og hálfleikstölur 12-11.

EN það gerðu þær í sókninni í upphafi seinni hálfleiks en vörnin þeirra gat ekki stöðvað FH þó fimm væru. Brátt var jafnt í liðum og baráttan harðari en áður. Í stöðunni 16–17 lokaði Margrét Einarsdóttir rammanum Fylkismegin og þrátt fyrir víti og góð færi gat FH ekki skorað. Að sjálfsögðu ætlaði Ástríður ekki að vera henni neinn eftirbátur og tókst með hjálp vel agaðrar varnar að loka markinu.

Þegar korter var eftir af leiknum lifnaði heldur betur yfir Fylkissókninni og fóru þar fremstar í flokki Hrafnhildur Irma Jónsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir. Það sem fylgdi svo næsta korterið var frábær handboltaleikur. Bæði lið gáfu allt í þennan kafla. Mörk á báða bóga og frábærar markvörzlur. Þegar sjö og hálf mínúta voru eftir og allt í járnum tók Ómar Örn leikhlé og náði að skipuleggja vörnina svo vel að Roland neyddist aftur til að taka leikhlé fljótlega á eftir kollega sínum. Eftir það vorum við allt í einu farnar að spila full-on skyttubolta með Sylvía Blöndal og Hildi Guðjóns í aðalhlutverkum.

Sylvía jafnaði 23-23 og besti leikur tímabilsins að ná hápunkti. Í næstu sókn tókst Elínu Rósu að flétta sig í gegnum FH-vörnina, skora marki og fiska af velli FH-ing. Einungis mínúta var nú eftir að leiknum og spennan að magnast. Hvergi bangnar héldu stelpurnar í lokasókn sína, staðráðnar í að jafna leikinn. Fylkisvörnin var dugleg að loka á allar glufur sem mynduðust í vörninni. Að lokum þurfti Diljá að hoppa inn í teiginn úr þröngri stöðu í hægra horninu. Margrét Einarsdóttir í marki Fylkis náði til boltans en það var ekki nóg og inn fór hann. 10 sekúndur eftir, einni færri og inni átti Ómar Örn eitt af sínum leikhléum sem höfðu virkað afar vel fyrr í leiknum. Spennan var bókstaflega að fara með alla áhorfendur, símar komnir á loft, lokasekúndunum átti svo sannarlega að ná á myndband!

Diljá tryggði okkar stelpum stigið í leik gærdagsins / Mynd: Brynja T.

En ekkert gerðist í lokasókninni og leikurinn var bara búinn. Ekkert drama á síðustu sekúndu, engin fagnaðarlæti. Elín Rósa sendi boltann útaf þegar sex sekúndur voru eftir á klukkunni, boltinn rúllaði bakvið auglýsingaskiltin og ekki vildu dómarar leiksins stoppa tímann sem rann út, bara sísona.

Eftir stendur þó frábær baráttuleikur þar sem ótal tækifæri buðust til að gefast upp en voru afþökkuð hvað eftir annað. Liðið barðist frábærlega í vörninni, þar sem meðal annars Hildur Guðjóns nældi sér í varnareinkunn upp á 9.3 á HBstatz, Ástríður lokaði markinu á mikilvægum augnablikum og sóknin var yfirveguð og á tíðum meistaraleg. Aníta Theodórsdóttir steig varla feilskref í sókninni með átta mörk úr níu skotum og Embla Jónsdóttir átti sjö stoðsendingar.

Á næsta þriðjudag halda stelpurnar okkar út á Seltjarnarnes, og leika þar gegn Gróttu. Meira um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Gimmi

Mörk FH: Aníta Theodórsdóttir 8, Sylvía Björt Blöndal 5, Ragnheiður Tómasdóttir 3, Diljá Sigurðardóttir 2, Embla Jónsdóttir 2, Hildur Guðjónsdóttir 2, Fanney Þóra Þórsdóttir 2.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsd. Scheving 12.

 

Aðrar fréttir