Stelpurnar okkar og sigurinn digri

Nýr dagur. Nýtt Nes. Sama útkoma!

Stelpurnar okkar unnu í gærkvöldi annan sigur sinn í röð, en þær gerðu þá góða ferð í Digranes og lögðu HK U að velli næsta örugglega.

Undirritaður mætti seint til leiks í Digranes, en ekki var það vegna bragðarefs í Snælandi líkt og óprúttinn aðili mældi með á síðu FH Handbolta fyrir leik – enda er Brynja í Engihjalla langtum betri. Lið FH mætti hins vegar á hárréttum tíma á leikstað, og þær leiddu með 5 marka mun í hálfleik þegar mig bar að garði. Staðan var þá 10-15, FH í vil.

Sylvía Björt var í markagírnum í Digranesi í gærkvöld. HK-stelpur réðu einfaldlega ekkert við hana. / Mynd: Brynja T.

Líkt og á Ásbjörn í karlaliði FH kvöldinu áður hafði runnið æði á Sylvíu Björt Blöndal í þessum fyrri hálfleik. 9 mörk hafði skyttan frækna þá þegar skorað. Átti hún einnig fyrsta mark síðari hálfleiks, en reyndist það vera hennar síðasta. Britney Cots tók hennar stað í vinstri skyttunni og skoraði mörg góð mörk, og þá fór FH-liðið að keyra hraðaupphlaupin af meiri grimmd. Þar nýtur Ragnheiður Tómasdóttir sín allra best, en hún er jafnan fyrst fram og þegar boltinn berst til hennar er ekki spurt að leikslokum.

Þetta mallaði allt saman. Stelpurnar okkar spiluðu fínan sóknarleik, samspilið var með ágætum og varnarleikurinn var þokkalegur. Ástríður stóð vaktina vel í markinu, og var það helst að lið HK skoraði úr vítaköstum, en þau fengu Digurnesingar í ómældu magni. Lokaniðurstaðan var 11 marka sigur FH-liðsins, 22-33. Verulega gott dagsverk hjá stelpunum okkar!

Embla átti flottan leik í gær, en hún skoraði 2 mörk og átti 6 stoðsendingar / Mynd: Brynja T.

Líkt og áður sagði var Sylvía Björt markahæst okkar kvenna með 10 mörk alls, en næstar á eftir henni voru þær Britney með 6 og Ragnheiður með 5. Í markinu varði Ástríður 13 skot.

Með sigrinum komu stelpurnar sér upp í 5. sæti deildarinnar, en þær eru nú með jafnmörg stig og Valur U í 4. sætinu. Hlíðarendaliðið á þó leik til góða. Næsti leikur stelpnanna er síðan stórleikur, gegn Fylki í Árbænum, en með sigri þar geta stelpurnar okkar mjakað sér enn nær toppsætunum. Nánar um þann leik síðar.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Sylvía Björt Blöndal 10, Britney Cots 6, Ragnheiður Tómasdóttir 5, Aníta Theodórsdóttir 4, Diljá Sigurðardóttir 3, Fanney Þóra Þórsdóttir 3, Embla Jónsdóttir 2.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsd. Scheving 13.

Aðrar fréttir