Stelpurnar stóðu uppi með stigin tvö eftir ótrúlegar lokamínútur

Eftir æsispennandi lokamínútur í Austurberginu í kvöld stóðu stelpurnar okkar uppi sem sigurvegarar gegn sterku liði ÍR. Lokakafli sem leiknum var vel sæmandi, enda var hann í járnum bundinn frá upphafi til enda. Lokatölur 19-20, FH í vil, en var þetta í annað sinn í vetur sem stelpurnar okkar vinna sigur með þessum hætti í Breiðholtinu.

Varnarleikurinn var í fyrirrúmi eins og lokatölur gefa til kynna, en einnig hefði færanýting beggja liða getað verið betri. Jafnt var á flestum tölum frá fyrstu mínútu, en stelpurnar okkar voru með yfirhöndina allt frá lokakafla fyrri hálfleiksins, sem lauk í stöðunni 11-12 fyrir FH.

Í síðari hálfleik voru FH-stelpur almennt með forystuna, en hún varð þó aldrei meiri en 2 mörk. Héldu raunar eflaust margir, að þegar okkar stelpur náðu tveggja marka forystu (17-19) og tvær mínútur voru eftir, að leiknum væri í raun lokið. Einhvern veginn var það ekki í kortunum, að ÍR-liðið myndi jafna eða komast yfir.

Britney skilaði stóru framlagi í kvöld, og tryggði okkar stelpum sigurinn í lok leiks / Mynd: Brynja T.

Breiðhyltingar voru þó ekki á þeim buxunum að gefast upp. Baráttan skilaði sér, því þegar um 10 sekúndur voru eftir náðu hvítklæddar heimakonur að koma boltanum framhjá Ástríði Þóru í marki FH. Svekkelsið var mikið – FH-liðið hafði gloprað niður algjörri kjörstöðu. En, það þýðir ekkert að svekkja sig á slíku! Ástríður var fljót að koma boltanum í leik, og áður en langt um leið hafði Britney Cots skilað tuðrunni í markið hinum megin, og þar með tryggt okkar stelpum stigin tvö í þessum hörkuleik. Ekkert minna en FH-liðið átti skilið!

Britney lét vel til sín taka í kvöld, en hún var markahæst með 7 mörk og stóð vörnina þar að auki vel – eins og FH-liðið í heild sinni. Fanney Þóra Þórsdóttir, sem myndaði með Britney öfluga miðju varnarinnar, var næst henni í markaskorun með 5 mörk.

Eftir leik kvöldsins sitja FH-stelpur í 4-6. sæti deildarinnar með 25 stig, líkt og lið Fylkis og Fram U. Nú er einungis einn leikur eftir af deildarkeppninni, og er hann heldur betur af dýrari gerðinni! Þá mætir topplið Aftureldingar í heimsókn í Krikann, og treysti ég því að FH-stelpur fái góðan stuðning í þeim leik. Við ætlum okkur ekkert annað en sigur, sem yrði svo fullkomið veganesti fyrir umspilið sem framundan er.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Britney Cots 7, Fanney Þóra Þórsdóttir 5, Aníta Theodórsdóttir 2, Diljá Sigurðardóttir 2, Embla Jónsdóttir 2, Sylvía Björt Blöndal 2.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsd. Scheving 14.

Aðrar fréttir