Stórsigur á Nesinu tryggði strákunum okkar sæti í undanúrslitum

Í gær barst yfirlýsing frá meistaraflokki FH: Við erum komnir til að vinna.

Fyrir þremur dögum höfðu FH-ingar nauman sigur á liði Gróttu í Kaplakrika. Það var ekki laust við að einhverjir settu spurningamerki við deildarmeistarana eftir frammistöðuna. Það verður gaman að heyra hvað spekingar segja eftir þennan sigur, því FH mætti til leiks og einfaldlega braut fínt lið Gróttu.

Arnar Freyr átti afar góðan leik í gær með 7 mörk skoruð / Mynd: Jói Long

Arnar Freyr átti afar góðan leik í gær með 7 mörk skoruð / Mynd: Jói Long

Það var ljóst frá fyrstu mínútu í hvað stefndi. Sókn Gróttu réð einfaldlega ekkert við FH-vörnina. Það þarf að taka fram að þeir söknuðu sárt Þráins Orra á línunni, en það breytir því ekki að þegar heimamenn reyndu að endurtaka mörkin sem komu þeim á sporið í síðasta leik, komust varnarmenn FH ítrekað inn í boltana.

Eftir korter tóku Gróttu menn leikhlé, þá í stöðunni 4-8. Það hafði nákvæmlega engin áhrif. Eitt stærsta vandamál FH í haust var að liðið komst í 4-5 marka forystu og misstu síðan haus. Núna héldu þeir bara áfram uppteknum hætti, og skömmu síðar voru Gróttumenn farnir að reyna sirkusmörk til komast í gegnum vörnina. Staðan 8-17 í hléi og leikurinn í raun búinn.

Það var alltaf viðbúið að heimamenn kæmu grimmari inn í seinni hálfleik en það var ekki fyrr en eftir tíu mínútur að þeir byrjuðu að valda FH-ingum hugarangri, en þá loksins var hausinn hjá okkar strákum aðeins kominn í næsta leik. Grótta náði að saxa á forystuna og svo kom furðleg röð atvika. Á sex mínútna kafla fengu Hafnfirðingar á sig einar 5 brottvísanir. Ég veit ekki hvort þeir lærðu svona vel af leiknum á Ásvöllum í haust, þegar rauðliðar voru á tímabili tveir á vellinum. Strákarnir leystu þetta einfaldlega af stakri prýði, með góðri hjálp frá Ágústi Elí sem valdi aldeilis tímann til að stíga upp. Á þessum kafla náðu Gróttumenn að minnka forystuna um heilt eitt mark. Ég er ekki frá því að sigurinn hafi orðið helmingi sætari við öflugan og fjölmennan hóp FH-inga í stúkuna eftir að hafa þurft að horfa á þessar mínútur.

Óðinn Þór að skora eitt af sínum 9 mörkum / Mynd: Jói Long

Óðinn Þór að skora eitt af sínum 9 mörkum / Mynd: Jói Long

Eftir þennan kafla var leikurinn í raun búin. Arnar Freyr og Óðinn skiptust á að skora úr hraðaupphlaupum og lokatölur 20-31. Ég treysti mér varla til að velja mann leiksins, en ætla að segja hann Ágúst Elí fyrir að hafa drepið vonir gestgjafana þegar þær byrjuðu að glæðast, en heilt yfir var liðið einfaldlega frábært. Það þarf líka að hrósa stúkunni, bæði leikmenn og gestgjafarnir virtust hissa á hversu flott mætingin var hjá stúkunni og stemningin var frábær. Þessi stuðningur er ómetanlegur og hann mun bara fara stigvaxandi. Við sjáumst í Krikanum 19. apríl, gegn annað hvort lærisveinum Einars Andra vinar okkar eða sprækum Selfyssingum. Það skiptir bara engu hvort lið það verður, verkefnið er nákvæmlega eins.

Við erum FH og við erum á góðum stað!

-Ingimar Bjarni

Það var gaman að vera FH-ingur á Seltjarnarnesi í gærkvöldi - líkt og ávallt / Mynd: Jói Long

Það var gaman að vera FH-ingur á Seltjarnarnesi í gærkvöldi – líkt og ávallt / Mynd: Jói Long

Mörk FH: Óðinn Þór Ríkharðsson 9, Arnar Freyr Ársælsson 7, Einar Rafn Eiðsson 5/1, Jóhann Birgir Ingvarsson 4, Ásbjörn Friðriksson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Jóhann Karl Reynisson 1, Jón Bjarni Ólafsson 1.

Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 14.

Aðrar fréttir