Strákarnir á toppnum um sinn eftir sigur á Norðanmönnum

Stig eru stig, sama hvernig þau fást.

Í gær komu Akureyringar í heimsókn til Hafnarfjarðar og voru nánast óþekkjanlegir frá liðinu sem okkar menn burstuðu fyrir mánuði. Þeir mættu brjálaðir í leikinn og eru greinilega meðvitaðir um að þeir eru að berjast fyrir lífi sínu í þessari deild. Eftir þennan leik, þrátt fyrir að FH hafi haft betur, er ég ekki að fara að setja pening á að Akureyringar falli. Jóhann Birgir kallaði þetta iðnaðarsigur, sem er líklega besta lýsingin á leiknum.

Jóhann Birgir átti góðan leik í gær / Mynd: Jói Long

Jóhann Birgir átti góðan leik í gær / Mynd: Jói Long

FH fór betur á stað, Jóhann Birgir skoraði eitt að þremur mörkum sínum sem voru eiginlega keiluskot, til að byrja með og Óðinn kom liðinu í 3-1. Þá var eins og eitthvað hökt kæmi í FH vélina og Akureyringar tóku öll völd á vellinum, komust í 4-7 og Halldór tók leikhlé til að lesa sínum mönnum pistilinn.

Það virkaði heldur betur, og FH skoraði fjögur í röð. En það sem eftir lifði leiks var einfaldlega stál í stál. Undir lok hálfleiks náði FH þriggja marka forystu og það sem eftir var voru heimamenn með eins til þriggja marka forystu. Í liði gestanna voru það Mindaugas Dumcius (7), Bergvin og Kristján Orri (6 hvor) sem voru atkvæðamestir en Einar Rafn fór fyrir okkar mönnum sem áður með 8 mörkum. Næstur á eftir var Jóhann Birgir með sex í heildina.

Þegar mínúta var eftir var allt í járnum og stúkan heldur betur búin að taka við sér. Einar Rafn kom okkar mönnum í tveggja marka forystu þegar hálf mínúta var eftir af vítalínunni en Dumcius svaraði strax á hinum enda vallarins. Tuttugu sekúndur þá eftir, okkar menn í sókn og Akureyringar komnir í maður á mann vörn. Okkar menn voru dæmdir brotlegir, og Ágúst kastaði boltanum frá sér eftir að flautan gall, víti og rautt. En heppnin var með okkur. Ingimundur Ingimundarson, aðstoðarþjálfari Akureyrar, hafði hlaupið að ritaraborðinu til að taka leikhlé og dómarinn mat stöðuna því svo að búið hefði verið að stoppa leikinn. Fimmti deildarsigurinn í röð staðreynd.

FH er komið í efsta deildarinnar, en Haukarnir eiga reyndar leik til góða í kvöld. Við erum fyrir ofan þá á innbyrðisviðureignum, og farið er að stefna í svakalegt einvígi um deildartitilinn. Næsta verkefni er í Vestmannaeyjum áður en Fram kemur í Kaplakrika. Þessi deild er hnífjöfn, en það sem skiptir máli um sinn er að FH-ingar eru efstir.

Við erum FH!

Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 8/2, Jóhann Birgir Ingvarsson 6, Óðinn Þór Ríkharðsson 4, Ágúst Birgisson 3, Þorgeir Björnsson 3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Jóhann Karl Reynisson 3.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 7, Ágúst Elí Björgvinsson 4.

Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir