Strákarnir öryggið uppmálað í fyrsta heimaleik ársins | 6 marka sigur á Akureyri

Eftir frábæran sigur á Fram á fimmtudaginn var næsta vekefni strákanna okkar að taka á móti Norðanmönnum í Kaplakrika. Fyrir leik vissu menn að sigur myndi færa okkur (allavega í einn dag) upp í annað sætið, aðeins tveimur stigum frá toppliði Aftureldingar og framúr hinu liðinu í Hafnarfirði á markatölu. Gestirnir voru hinsvegar nýbúnir að leggja Valsara glæsilega að velli og gátu með sigri lyft sér úr fallsæti.

Okkar menn byrjuðu betur og fyrir utan 2-3 kafla strax í byrjun, héldu þeir forystunni allan leikinn. Eftir leikinn talaði Halldór um að hann væri að þjálfa upp hraðann í liðinu og það sást í fyrri hálfleik. Akureyri átti slæman kafla sóknarlega, sem við refsuðum grimmt með hraðaupphlaupum. Óðinn Þór var þar mikilvægasti hlekkurinn en hann náði að skora fjögur af fimm slíkum mörkum liðsins, sem skilaði liðinu fimm marka forystu þegar tuttugu mínútur voru liðnar af hálfleiknum.

Eftir það kom stirður kafli af okkar hálfu. Akureyringar þjöppuðu vörninni saman og Tomas Olason (að öðrum ólöstuðum þeirra besti maður) hrökk í gang, svo að okkur gekk bölvanalega að skora. Seinustu tíu í fyrri hálfleik náðum við aðeins að koma boltanum tvisvar í netið en þá kom sterk FH vörn að góðum notum. Þrátt fyrir að við skoruðum ekki mikið náðu gestirnir ekki að saxa meira á forskotið en svo að hálfleikstölur voru 16-14.

FH-ingar komur sprækir inn í seinni hálfleik. Einar Rafn hefur fengið einhverja vítamínsprautu í hálfleik, hann mætti afar sprækur til leiks og náði að skora þrjú á fyrstu þremur mínútum hálfleiksins og auka muninn aftur í fimm. Það sem eftir lifði leiksins var jafnræði með liðunum. Akureyringar minnkuðu muninn ítrekað í þrjú mörk en flottar vörslur frá Birki (sem tók 9 bolta í seinni hálfleik) og mörk frá Ásbirni, Ágústi og Einari Rafn héldu taki FH-inga á leiknum.

Þegar fimm mínútur voru eftir tók Sverre leikhlé til að reyna að snúa leiknum við. Það hafði ekki alveg þau áhrif sem hann vildi, Birkir varði og Óðni tókst (loksins) að auka muninn í sex mörk. Lokatölur urðu 33-27 FH í vil.

Einar Rafn heldur áfram að salla inn mörkum fyrir FH-liðið!

Einar Rafn heldur áfram að salla inn mörkum fyrir FH-liðið!

Okkar markahæsti maður var Einar Rafn, með 9. Fast á hæla hans kom Óðinn Þór með 8 og þá var Ásbjörn með 7. Í vörninni skiptust Ágúst, Jóhann Karl og Ísak á að standa eins og klettar og markmennirnir okkar voru með 15 bolta. Verður að segjast að liðið lítur afar vel út eftir jólafríið. Það er ein heil umferð eftir af deildinni og engin ástæða til að ætla annað en liðið verði að slást um efstu sætin. Næsta verkefni er á föstudag, er strákarnir leika í átta liða úrslitum bikarsins gegn Fram. Framarar eru líklega í hefndarhug eftir skellinn sem þeir fengu frá okkar mönnum í síðustu viku.

FH-ingar ætla að fjölmenna í Safamýrinna til að styðja liðið og hjálpa þeim að bóka miða á Final Four í Laugardalshöllinni í lok febrúar. Nánar um þann leik þegar nær dregur! 

Við erum FH!
– Ingimar Bjarni

Mörk FH: Einar Rafn Eiðsson 9/2, Óðinn Þór Ríkharðsson 8, Ásbjörn Friðriksson 7/1, Ágúst Birgisson 3, Arnar Freyr Ársælsson 2, Jóhann Birgir Ingvarsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1, Jóhann Karl Reynisson 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 9, Ágúst Elí Björgvinsson 6.

Aðrar fréttir