Tap fyrir Lindersberg – Leikur gegn Elverum í kvöld

Tap fyrir Lindersberg – Leikur gegn Elverum í kvöld

Strákarnir töpuðu í gær, 32-27 á móti LIF Lidersberg í fyrsta leik
sínum á æfingamótinu í Eskilstuna í Svíþjóð.  Leikurinn var frekar jafn
framan af leik en Svíarnir þó alltaf skrefinu á undan en aldrei meira
en 2-3 mörk.


Ísak Rafnsson var frábær gegn Lindersberg (tekið af vef Guif)

 Þrátt fyrir að í lið okkar vantaði marga sterka leikmenn
var leikurinn nokkuð góður af hálfu okkar manna en sænska liðið var
einfaldlega sterkara.  Þeir sem komu inn fyrir meidda leikmenn stóðu
sig allir vel en enginn þó eins og hinn kornungi Ísak Rafnsson, sem er
aðeins 17 ára og leikur enn með 3. flokki.  Stráksi mætti heitur til
leiks og setti 6 mörk í fyrri hálfleik úr langskotum og réðu Svíarnir
ekkert við hann.  Hann bætti svo tveimur mörkum við í seinni hálfleik
og endaði því með 8 mörk sem verður að teljast frábært hjá strák í
sínum öðrum meistaraflokksleik.

Örn Ingi Bjarkason átti einnig skínandi leik og var markahæstur með 9
mörk, þar af 3 úr vítum.  Þá áttu þeir Ari Þorgeirsson og Halldór
Guðjónsson fínan leik á hægri vængnum.
Í hinum leik kvöldsins sigraði Guif lið Elverum með 28  mörkum gegn 25.
FH leikur í kvöld við Elverum.

 

Aðrar fréttir