Þægilegur þrettán marka sigur stelpnanna í Víkinni

Stelpurnar okkar komust aftur á sigurbraut í gærkvöldi þegar þær unnu þægilegan sigur á liði Víkings í Fossvogi. Lokatölur voru 15-28 FH í vil, eftir að stelpurnar höfðu leitt með 5 marka mun í hálfleik.

Hanna Jóna er hér búin að snúa af sér varnarmenn Víkinga. / Mynd: Brynja T.

Stigin tvö voru varla nokkurn tímann í hættu. Til að byrja með virtist að vísu eitthvað ryð vera í FH-liðinu, 2-4 staða glopraðist niður í 5-4 og stelpurnar virtust ekki ná fram sínu besta strax í byrjun. Í stöðunni 7-6 tóku þær hins vegar kipp, komu sér í 7-11 og litu vart um öxl eftir það. Hálfleiksstaðan var 9-14, FH í vil, og útlitið nokkuð gott.

Í raun er lítið hægt að segja um síðari hálfleikinn. Ljóst var allt frá því að pásunni lauk að þar yrði sigri landað. FH-liðið sallaði inn mörkum hægt og rólega, dreifði þeim mörkum vel á leikmannahópinn og lokaði þessu einfaldlega. Góður 13 marka sigur staðreynd.

Hrafnhildur Anna stóð vaktina vel í rammanum / Mynd: Brynja T.

Í jöfnu og góðu FH-liði var Ragnheiður Tómasdóttir atkvæðamest, en hún skoraði 6 mörk að þessu sinni. Næstar á eftir henni voru Britney Cots, Hildur Guðjónsdóttir og Sylvía Björt Blöndal – allar með 4 mörk. Í markinu stóð Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir vaktina með prýði, en hún varði 11 skot í markinu.

Næsti leikur stelpnanna okkar er sá stærsti á tímabilinu til þessa, en þá mætir ósigrað topplið ÍR í heimsókn í Krikann. Þegar að ég segi ósigrað þá á ég að sjálfsögðu aðeins við deildarkeppnina, því eins og við munum öll þá slógu stelpurnar okkur Breiðhyltinga út í bikarnum fyrir örfáum dögum síðan. Er hér um að ræða síðasta deildarleik fyrir áramót. Leikurinn er á laugardaginn næstkomandi, 17. nóvember – takið daginn frá! Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Ragnheiður Tómasdóttir 6, Britney Cots 4, Hildur Guðjónsdóttir 4, Sylvía Björt Blöndal 4, Aníta Theodórsdóttir 3, Diljá Sigurðardóttir 3, Aþena Arna Ríkharðsdóttir 2, Andrea Valdimarsdóttir 1, Hanna Jóna Sigurjónsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 11.

Aðrar fréttir