Toppliðið kjöldregið í Krikanum

Toppliðið kjöldregið í Krikanum

FH-ingar sýndu svo sannarlega úr hverju þeir eru gerðir er þeir unnu stórsigur á toppliði Akureyrar, 30-23, í Kaplakrika í kvöld. Var þetta þriðja viðureign liðanna á einungis einni viku og þar að auki fyrsti leikur þriðju umferðar íslandsmóts karla í handknattleik. Mátti að sjálfsögðu búast við erfiðum leik, enda höfðu Akureyringar fyrir leik kvöldsins einungis tapað einum leik í deildinni.


Ólafur Gústafsson skoraði 6 mörk í kvöld

Augljóst var frá upphafi að FH-ingar ætluðu sér að hefna fyrir ófarirnar að norðan í vikunni sem leið. Þeir mættu til leiks með gríðarlegum krafti, vörnin var eins og best verður á kosið og sóknarleikurinn gekk smurt. Liðin voru nokkurn veginn stál í stál allan fyrri hálfleikinn, en þó voru Akureyringar lengst af með yfirhöndina að nokkru leyti, en aldrei munaði meiru en tveimur mörkum á liðunum. FH-ingar kláruðu hálfleikinn þó betur og héldu inn í hléið með forystu, 13-12.


Baldvin átti frábæran leik – skoraði 7 mörk að þessu sinni og var flottur í vörninni

Seinni hálfleikur var eign FH-inga frá A til Ö. Þeir hófu hann eins og þeir hófu leikinn, með 4-1 kafla, og breyttu stöðunni úr 13-12 í 17-13. Á þessum tímapunkti var varnarleikurinn frábær, Daníel Andrésson í fantaformi í markinu og sóknarleikurinn á fínu róli – en þar fóru einna helst Ólafur Gústafsson og Ásbjörn Friðriksson fyrir FH-ingum.


Ási hefur verið stöðugleikinn uppmálaður í vetur og hann skoraði 8 mörk í kvöld

FH-ingar voru ekki á þeim buxunum að hætta. Munurinn á liðunum jókst smátt og smátt og brátt voru FH-ingar komnir með 10 marka forskot, 28-18. Akureyringar náðu þó í lokin að laga stöðuna örlítið og lauk leiknum með sjö marka sigri FH-inga, 30-23.

Sigurinn í kvöld var sigur liðsheildarinnar. Strákarnir spiluðu frábærlega saman sem lið, varnarlega og sóknarlega, og uppskáru eins og þeir sáðu gegn sterku liði Akureyrar. Atkvæðamestur FH-inga að þessu sinni var Ásbjörn Friðriksson með 8 mörk, en fast á hæla hans fylgdu þeir Baldvin Þorsteinsson með 7 mörk og Ólafur Gústafsson með 6 mörk. Þá var Daníel Andrésson frábær í markinu, en hann varði 17 skot að þessu sinni – frábært framlag hjá drengnum.


Halldór Guðjónsson í gegnumbroti

Vitað var fyrir leikinn að mikilvægi hans væri gríðarlegt, sér í lagi vegna þess að FH-ingar áttu það á hættu að missa Hauka upp fyrir sig í 4. sæti deildarinnar eftir leiki kvöldsins. En svo fór þó að lokum að Haukar náðu ekki sigri gegn botnliði Selfoss og því var ekki hætta á því. Ofan á þetta bættist svo að bæði Fram og HK töpuðu sínum leikjum, sem þýðir að FH-ingar fóru upp fyrir HK-inga og sitja því nú í 3. sæti deildarinnar með 19 stig, jafnir Frömurum að stigum – en FH og Fram mætast einmitt í næstu umferð. Akureyringar eru efstir sem fyrr með 25 stig, en HK-ingar sigu niður í 4. sætið og eru nú með einu stigi meira en Haukar, sem sitja í 5. sæti deildarinnar.

Næsta verkefni FH-inga er fimmtudaginn 3. mars, en þá mæta þeir Frömurum í Safamýrinni. Stutt er síðan liðin mættust síðast og ættu því að þekkjast nokkuð vel. Nánar um þann leik síðar.

Þá má ekki gleyma að minnast á þá handboltaveislu sem fer fram í Krikanum á morgun, þriðjudaginn 22. febrúar. Þá eigast við í undanúrslitum bikarkeppni yngri flokkanna lið FH og Hauka í 2. flokki og 4. flokki. Verður mikið lagt upp úr umgjörð í kringum leikina tvo, sjoppan opin og ljósashow í byrjun leiks. Leikur 2. flokks liðsins by

Aðrar fréttir