Toppsætið enn okkar

Toppsætið enn okkar

FH gerði í gær jafntefli við Stjörnuna á Samsung-vellinum í Garðarbæ, en Stjarnan jafnaði metin átta mínútum fyrir leikslok með vafasömu marki og lokatölur 2-2. 

Okkar menn byrjuðu betur og náðu tökunum á leiknum snemma í leiknum. Atli Viðar Björnsson kom okkar mönnum yfir þegar 24. mínútur voru búnar af leiknum eftir hornspyrnu frá Ólafi Páli.

Eftir það féllu okkar menn dálítið aftarlega og Arnar Már Björgvinsson jafnaði metin tíu mínútum síðar með þrumuskoti.

Staðan var 1-1 í hállfeik og allt þar til á 67. mínútu þegar Óli Palli fékk boltann á hægri kantinum, lék inná teiginn og ætlaði að leggja boltann á Atla Viðar Björnsson, sem fór svo að Martin Rauschenberg mokaði boltanum yfir sína eigin línu og okkar menn komnir með forystu.

Í öllum látunum fyrir þetta mark fékk Pétur Viðarsson sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að toga Veigar Pál niður. Okkar menn orðnir einum manni færri og rúmar tuttugu mínútur eftir.

Stjörnumenn jöfnuðu svo metin átta mínútum fyrir leikslok með vafasömu marki. Veigar Páll Gunnarsson náði þó að koma boltanum yfir Robba í markinu með afar skrýtnu skoti, en Sean Reynolds virtist ná að bjarga á línu. Sigurður Óli, aðstoðardómari, var ekki á sama máli og flaggaði um að boltinn hafi farið inn fyrir línuna. 

Afar erfitt var í sjónvarpinu að sjá hvort boltinn hafi farið yfir línuna og undirritaður skilur varla hvernig Sigurður Óli komst að því, þar sem hann var ekki í línu við atvikið og afar þreytt er ef boltinn hafi svo ekki farið yfir línuna. 

En eitt stig er betra en ekki neitt og höldum við enn toppsætinu. Við erum enn með tveggja stiga forystu á Stjörnuna og sex stiga forystu á KR í þriðja sætinu. 

Næsti leikur er útileikur í Evrópudeildinni gegn FC Neman Grodno á fimmtudaginn og munum við fjalla um þann leik meira í vikunni. 

Aðrar fréttir