Unnið eða tapað stig í toppbaráttunni í gær

Fúlt eða flott?

Það var enginn fyllilega sáttur í Kaplakrika í gærkvöldi. Hvorki Framari né FH-ingur. Framarar voru grautfúlir yfir að hafa klúðrað fjögurra marka forystu á síðustu mínútunum, FH-ingar fúlir með að hafa varla mætt til leiks. Grátlegt að tapa stigi gegn botliðinu en frábært að hafa náð að vinna upp stöðuna eins og hún var. En þetta lið getur svo miklu betur, við vitum það, þeir vita það.

Birkir Fannar var besti maður FH-liðsins í gærkvöldi.

Birkir Fannar var besti maður FH-liðsins í gærkvöldi.

Leikurinn var kaflaskiptur. FH náði 3-4 marka forystu tvisvar en glataði henni jafnóðum, og Framarar voru ýmist frábærir og skelfilegir. Arnar Birkir fór á kostum í sókninni hjá þeim og líklega var það framlag Birkis Fannars sem hélt okkar mönnum í leiknum. Öðru hverju sýndu okkar menn glimrandi sóknarleik, en þá datt vörnin niður og öfugt.

Bestu kaflar okkar manna voru fyrstu fimm og svo síðustu fimm. Ágúst Birgisson fékk rautt fyrir þriðju brottvísun þegar fimm mínútur voru eftir og okkar menn fjórum mörkum undir. Það kveikti aldeilis í liðinu. Ágúst Elí kom inn á til þess að verja víti og mörkin fjögur komu með stuttu millibili. Fram fékk séns á að klára leikinn en allt kom fyrir ekki fyrir þá. Þegar 10 sekúndur voru eftir jafnaði Jóhann Birgir með þrumufleyg í fjærhornið og okkar menn sigldu einu stig í höfn, því guðs lifandi fegnir úr því sem komið var.

Það sem er hægt að taka úr leiknum: Okkar menn eru ennþá í bullandi titilbaráttu. Það er náttúrulega grautfúlt að hafa ekki náð að minnka muninn á toppnum en það munar ennþá bara tveim stigum, þó ÍBV og Afturelding geti nú jafnað okkur að stigum. Stemningin í Krikanum er að aukast – það verður að hrósa þessum nokkru sem eru á fullu allan leikinn og líka þeim sem keyrðu sig í gang þegar mest reið á.

Í næstu viku koma Einar Andri og lærisveinar hans í heimsókn. Það verður bjálæði, sem sker endanlega um hvort liðið verði að berjast um bikar eða heimaleikjarétt. Held að ég þori að fullyrða að okkar menn mæti trítilóðir í þann leik til að hefna þessara þriggja töpuðu stiga í síðustu tveimur leikjum.

Við erum FH!

-Ingimar Bjarni.

Mörk FH: Óðinn Þór Ríkharðsson 5, Jóhann Birgir Ingvarsson 5, Einar Rafn Eiðsson 5, Jóhann Karl Reynisson 4, Þorgeir Björnsson 3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Ágúst Birgisson 2, Birkir Fannar Bragason 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 13, Ágúst Elí Björgvinsson 1.

Aðrar fréttir