Upphitun: FH – Fram, 15. mars 2017

23. umferð Olísdeildar karla hefst í kvöld þegar að FH-ingar taka á móti Fram í Kaplakrika kl. 19:30.

Árni Stefán vill sjá þig í stúkunni í kvöld!

Árni Stefán vill sjá þig í stúkunni í kvöld!

Ekki er hægt að segja annað en að liðin þekkist vel, eftir að hafa mætt hvoru öðru tvisvar með stuttu millibili í síðasta mánuði. Báðir leikirnir fóru fram á heimavelli Framara í Safamýrinni og báðum lauk með sigri okkar manna, þeim fyrri með yfirburðasigri en þeim síðari eftir spennandi leik þar sem Framarar höfðu yfirhöndina lengi vel.

Í ljósi þess hve vel strákarnir þekkja Framliðið, þá vita þeir betur en svo að halda að leikurinn vinnist með vinstri í kvöld. Safamýrarpiltar sitja vissulega í neðsta sæti deildarinnar eins og er, en þeir geta staðið í hverjum sem er í þessari deild. Fyrir tveimur umferðum töpuðu þeir naumlega gegn Haukum á heimavelli eftir mikla baráttu, og þá máttu þeir sætta sig við sárt eins marks tap gegn Stjörnunni síðastliðinn fimmtudag. Framarar eru baráttuhundar, og hafa sýnt að þeir geta vel haldið sér uppi þrátt fyrir að hafa verið afskrifaðir af mörgum fyrir tímabilið. Þá verður að taka alvarlega.

Okkar menn mæta til leiks með sært stolt eftir erfiða ferð til Eyja í síðustu viku, en þar máttu þeir sætta sig við 9 marka tap. Leikurinn var ekki alslæmur af okkar hálfu, í fyrri hálfleik leit FH-liðið þokkalega út og var munurinn á liðunum bara eitt mark í hálfleik. Jafn leikur virtist vera í kortunum, en í síðari hálfleik mættu Eyjamenn einfaldlega mun sterkari til leiks og kláruðu hann.

Skítur skeður (afsakið frönskuna mína). FH-ingar voru ekki eina Hafnarfjarðarliðið sem tapaði sínum leik í síðustu umferð, og eru fyrir vikið enn aðeins tveimur stigum frá toppsætinu í Olísdeildinni. Þá erum við með yfirhöndina í baráttu um heimavallarrétt í úrslitakeppninni, sem getur reynst ansi dýrmætur þegar í hana er komið – strákunum líður jú býsna vel í Krikanum, fyrir framan okkar fólk. Við viljum halda þessari góðu stöðu, og það sem meira er, við viljum bæta hana. Við ætlum að fikra okkur, skref fyrir skref, nær toppnum.

Mætum í Krikann í kvöld og hjálpum strákunum að sækja tvö dýrmæt stig.

Við erum FH!

Aðrar fréttir