Upphitun: FH – Fram U, föstudaginn 18. janúar 2019 kl. 19:30

Nýr leikur, nýtt tækifæri! Grill 66 deild kvenna er hafin að nýju eftir pásu, en annar leikur deildarinnar eftir hlé fer fram annað kvöld þegar lið Fram U kemur í heimsókn í Krikann. Frumraun FH-liðsins á árinu 2019 gekk ekki sem skyldi, og nú er ráð að bæta fyrir það – nú má árið byrja fyrir alvöru.

Þegar þetta er skrifað eru FH-stelpur í 6. sæti deildarinnar með 11 stig, en þó með leik til góða á liðin fyrir ofan sig. Eitt þeirra liða er andstæðingur okkar á morgun, en Fram-stelpur eru í 4. sæti um þessar mundir með 15 stig.

Síðasti leikur liðanna kallar ,,Fram” ánægjulegar minningar í hugum þeirra sem í Safamýrina mættu. Stelpurnar okkar spiluðu flottan handbolta gegn góðu liði Fram-kvenna, leiddu með 4 mörkum í hálfleik og héldu út allt til leiksloka. Lokatölur 19-22, FH í vil.

Varnarleikurinn var til fyrirmyndar í umræddum leik, og ofan á það bættist frábær leikur Ástríðar Þóru í marki Fimleikafélagsins. Það er lykillinn að því að vinna gott lið líkt og Fram er. Varnarleikur FH-liðsins í þessum leik var e.t.v. sá besti sem liðið hefur sýnt í vetur, og má gjarnan verða endurtekning þar á annað kvöld.

Fanney fór á kostum í Safamýrinni, þegar liðin mættust síðast / Mynd: Brynja T.

Eitt er víst. Leikur eins og þeir sem stelpurnar hafa átt upp á síðkastið – gegn ÍR, Aftureldingu og Val U – mun ekki duga til.

Þetta er ekki spurning um hvort þú ert sleginn niður, heldur hvort þú rífur þig upp á lappirnar aftur. Stelpurnar sýndu ekki sitt rétta andlit gegn Aftureldingu í síðustu viku, en nú má heldur betur bæta upp fyrir það. Nú sækjum við sigur, sem kemur okkur nær toppslagnum, þar sem við eigum heima. Þar sem við ætlum okkur að vera.

Ég vona að stelpurnar trúi því sama og við, sem með þeim fylgjumst. Að þeim séu allir vegir færir. Að þær geti unnið hvern sem er í þessari deild, og að stöðugleikinn sé ekki langt undan. Þegar trúin er til staðar gerast magnaðir hlutir.

Í hóp FH-liðsins fyrir morgundaginn gætu bæst tveir nýjir leikmenn, sem gengið hafa í raðir okkar í janúarmánuði. Þær heita Emilía Ósk Steinarsdóttir og Freydís Jara Þórsdóttir. Emilía Ósk er skytta sem skipti yfir til okkar frá Haukum, en Freydís Jara spilar hlutverk leikstjórnanda og kemur til okkar frá Stjörnunni. Sú síðarnefnda lék gegn okkur í haust með liði Stjörnunnar U, og er markahæsti leikmaður Garðabæjarliðsins í vetur. Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar í hlýjan faðm FH-fjölskyldunnar!

Til ykkar allra, sem henni tilheyra, biðla ég: mætum og styðjum stelpurnar okkar. Ýtum síðari hluta mótsins úr vör, leggjumst öll á árarnar. Morgundagurinn verður fyrsti dagur nýrrar sigurgöngu.

Við erum FH!

Aðrar fréttir