Upphitun: FH – Grótta, 26. mars 2017

Þrír leikir eftir. Allt undir. Ef FH vinnur þá alla er liðið deildarmeistarar í fyrsta sinn. Ekki síðan eitthvað. Í fyrsta sinn. Mótherjarnir í dag eru ekkert grín, það er ekki mikið búið að fara fyrir þeim í fjölmiðlum en síðustu vikur hafa þeir í rólegheitum verið að slíta sig úr fallabaráttuni og klífa töfluna, en þurfa helst þrjú stig til að gulltrygga áframhaldandi veru í Olís deildinni.

Jóhann Karl Reynisson og Ágúst Birgisson FH Fram

Þeir eru búnir að sækja fjögur rándýr stig í síðustu þrjá leiki og spila sinna besta handbolta í vetur. Þeir gerðu jafntefli við Selfoss, sigruðu á Ásvöllum og náðu svo að stela jafntefli við Val í síðasta leik. Sá leikur var hreinlega ótrúlegur og glæpsamlegt að hann hafi ekki verið í beinni í sjónvarpinu. Þegar korter var búið, í stöðunni 9-8, tók þjálfari liðsins Gunnar Andréson leikhlé sem var hrein hörmung og út hálfleikinn skoraði liðið aðeins tvö mörk. Þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum voru Valsarar átta mörkum yfir. En Grótta sýndi fádæma hörku og baráttu, og hægt og rólega börðu þeir sig aftur inn í leikinn. Þeir þurftu þrjú dauðafæri til að jafna en það tókst þegar mínúta var eftir og náðu þeir að halda stiginu. Síðustu sekúndur leiksins voru vægast sagt umdeildar en líklega höfðu dómarar leiksins rétt við í síðustu dómum leiksins. Allt varð brjálað og Gróttumenn fögnuðu jafnteflinu innilega.

Ásbjörn Friðriksson FH UMFA

FH og Grótta hafa spilað tvisvar í deildinni og ólíkari gætu leikirnir ekki hafa verið. Leikurinn út á Nesi var hugsanlega lágpunktur FH-liðsins í vetur. Gróttumenn gjörsamlega drápu sóknarleik FH, Ási meiddist og FH tapaði með sex mörkum. Seinni leikurinn kom í kjölfari lélegs kafla hjá liðinu. Hafnfirðingar voru yfir mest allan leikinn en en það var ekki fyrr en seint í seinni hálfleik sem þeir tóku almennilegan sprett og náðu meira en eins eða tveggja marka forystu. Í kjölfarið kom flottur mánaðarkafli hjá strákunum í deildinni.

Grótta eru algjört baráttulið, þeir eru með það bakvið eyrað að það er ennþá séns á falli og munu selja sig rándýrt í leiknum. Strákarnir okkar unnu góðan sigur á Aftureldingu í síðasta leik; sýndu, eftir smá pásu, þau gæði sem búa í þeim. Þetta er næstsíðasti leikurinn í Kaplakrika í deildinni í vetur, huggulegur sunnudagsleikur. Það er ekkert betra en að rölta í Krikann á svona degi og styðja FH, með fínasta bikar í augnsýn. Þetta er ekki flókið, allir í Kaplakrika, þetta verður svakalegur leikur.

Við erum FH!

-Ingimar Bjarni

 

Aðrar fréttir