Upphitun: FH – Haukar, mánudaginn 18. desember 2017

Gleymdu veðurspánni. Í kvöld, rétt tæpri viku fyrir jól, fæst spurningunni svarað – verða þau hvít eða rauð í ár?

Haukar

Búast má við Ásvellingum ákveðnum á fjölum Kaplakrika í kvöld, enda er margt í húfi að þessu sinni. Að sjálfsögðu er slegist upp á montréttinn að venju, en fleira kryddar þennan slag.

Fyrir það fyrsta vilja grannar vorir bæta upp fyrir fyrri leik liðanna í deildinni þetta árið, en honum lauk með góðum sigri strákanna okkar (23-27) á útivelli. Í öðru lagi myndi sigur FH-liðsins þýða, að munurinn á liðunum yrði 7 stig í hléinu. FH-ingar sætu þá sem fastast á toppi deildarinnar, en Haukar enn fastar í 5. sæti. Þá má líta á leik dagsins sem einvígi landsliðsmarkvarðanna tvegga, Ágústar Elí og Björgvins Páls. Þetta verða mennirnir sem verja rammann fyrir Íslands hönd í Króatíu í janúar, og ekki leikur nokkur vafi á því að Geir landsliðsþjálfari Sveinsson fylgist náið með þróun mála.

Ágúst Elí fer verðskuldað til Króatíu með landsliðinu í janúar / Mynd: Jói Long

Haukar hafa statt og stöðugt verið meðal efstu liða í deildinni það sem af er vetri, en hafa tapað tveimur síðustu leikjum sínum. Eftir að hafa orðið annað hafnfirskra liða til að leggja Val að velli á Hlíðarenda í 11. umferð, fóru Ásvellingar í Breiðholtið og töpuðu nokkuð óvænt fyrir ÍR með eins marks mun. Því fylgdi síðan erfið ferð til Vestmannaeyja, þar sem 5 marka sigur heimamanna í ÍBV varð reyndin. Í þeim leik munaði sérstaklega um fjarveru Daníels Þórs Ingasonar, sem hefur verið besti útileikmaður Hauka í vetur. Hann verður væntanlega leikfær í kvöld, en hann spilaði með Haukunum er þeir lögðu ÍR að velli í bikarnum í síðustu viku.

Einn sérlega mikilvægan leikmann hafa Haukar endurheimt frá því að liðin mættust síðast. Sá heitir Adam Haukur Baumruk, og hefur verið stórskytta Haukaliðsins um nokkurra ára skeið þrátt fyrir ungan aldur. Hann var fjarverandi vegna einkirningasóttar allt þar til fyrir stuttu, og er ef til vill ekki kominn í sitt besta leikform ennþá, en er ávallt stórhættulegur þegar hann stígur inn á völlinn.

FH

Í kvöld gefst FH-ingum tækifæri til að fullkomna það sem hefur verið frábær fyrri hluti tímabilsins. Með sigri gegn okkar stærstu andstæðingum, í okkar eigin húsi, tryggjum við okkur toppsæti deildarinnar í hléinu sem framundan er.

Það hlýtur að vera markmið okkar allra, leikmanna og stuðningsmanna, að láta það verða að veruleika.

Það er eitthvað við þetta, ekki satt?

Ég veit ekki alveg hvað það er, en það er einhver sérstök tilfinning sem fylgir því að sjá stöðutöfluna í Olísdeildinni og merkja, að FH er þar efst á blaði. Ekki veit ég hvernig það á að vera ,,kalt á toppnum“. Tilfinningin er hlý og góð, sérstaklega er líður á tímabilið.

Það er góður ávani að sigra. Ekki verður annað sagt en að strákarnir séu komnir í góða æfingu. 11 sigrar í deild, Evrópukeppnin, bikarinn – fullt af sigrum í öllum stærðum og gerðum.

Vissulega er satt og rétt, að toppsætið í desembermánuði færir manni engan bikar í hendur í lok þess. Mótið vinnst ekki um þetta leyti. En það sakar sannarlega ekki að tróna yfir öðrum liðum sem lengst.

Þá er ekki verra, að vinna tvo deildarleiki gegn ,,hinum“ af tveimur mögulegum. Að fá það endanlega staðfest þetta árið, hvort bæjarliðið er betra. Hver er stóri og hver er litli bróðir.

ÞÚ spilar rullu í kvöld. Ekki efast um það. / Mynd: Brynja T.

Að hluta til vinnst sú barátta í stúkunni. Við viljum sýna og sanna með stuðningi okkar, að við stöndum sem klettur að baki okkar strákum. Við viljum styrkja þá í mótlæti, og veita þeim byr í seglin í meðlæti. Það skiptir öllu máli.

Sýnum þeim, að við kunnum að meta þá veislu sem þeir hafa lagt á borðið leik eftir leik það sem af er vetri.

Sýnum þeim, að lystin er enn til staðar. Að við erum ekki orðin södd.

Þetta er vissulega aðeins hluti leiðarinnar að einhverju stærra og meira, en þetta er STÓR áfangi á þeirri leið.

Með það í huga, skulum við mæta til leiks í Krikann í kvöld með það að markmiði að hirða þessa 2 punkta. Öll sem eitt. Sönnum það, að Hafnarfjörður er fyrst og fremst svartur og hvítur. Og sönnum það endanlega, að við erum það félag sem ÆTLAR sér að hirða dolluna stóru í vor.

Við erum FH!

Aðrar fréttir