Upphitun: FH – RK Dubrava, laugardaginn 8. september 2018

Loksins er komið að því! Handboltinn snýr aftur heim annað kvöld, þegar fyrsti leikur FH-inga í Kaplakrika á nýju tímabili fer fram. Um er að ræða seinni viðureign strákanna okkar gegn króatíska liðinu RK Dubrava í EHF-bikarnum, en fyrri leik liðanna ytra lauk með fjögurra marka sigri strákanna okkar. 29-33 voru lokatölur, og staða okkar manna er því vænleg.

En eins og við kynntumst vel á síðasta tímabili, þá getur hvað sem er gerst í Evrópuleikjum sem þessum, og því höfum við ekki efni á að taka neinu sem gefnu. Staðan er vissulega góð, en á morgun þurfum við að hafa okkur öll við til að tryggja áframhaldandi þátttöku í Evrópu þetta árið. Stöndum með strákunum okkar!

RK Dubrava

Andstæðingur okkar, RK Dubrava, á rætur sínar að rekja til Dubrava sem er eitt af stærri hverfum Zagreb-borgar. Félagið hefur, líkt og önnur lið þar í landi, mátt standa í skugga nágranna sinna í RK Zagreb allt frá stofnun króatísku úrvalsdeildarinnar árið 1992, en eins og vel er þekkt hefur hinn stóri og sterki nágranni unnið titilinn árlega síðan þá.

Síðasta keppnistímabil var farsælt hjá liði Dubrava, en þeir enduðu þá í efsta sæti megindeildarkeppni þeirra Króata. Þar er um að ræða deild sem skipuð er 10 af 12 bestu liðum landsins, að undanskildum bestu liðunum tveimur – RK Zagreb og RK Nexe Nasice – sem taka þátt í SEHA-deildinni svokölluðu, eins konar Meistaradeild Austur-Evrópu.

Að 18 umferðum loknum er deildinni skipt í tvennt, og mæta þá bestu liðin tvö til leiks í efri hluta deildarinnar. Að venju hafði RK Zagreb þar þónokkra yfirburði, en RK Dubrava endaði með jafnmörg stig og sterkt lið RK Nexe í 2-3. sæti – þó með nokkuð lakari markatölu.

Á síðasta keppnistímabili tóku liðsmenn Dubrava einnig þátt í EHF-bikarnum, og komust þeir þar í þriðju umferð undankeppninnar, líkt og okkar menn í FH. Í fyrstu umferð lögðu þeir að velli andstæðinga Selfyssinga í EHF-bikarnum í ár, Klaipeda Dragunas frá Litháen, og því næst slógu þeir út ungverska liðið Csurgói KK. St. Raphaël frá Frakklandi reyndist hins vegar vera of stór biti fyrir liðið að kyngja í 3. umferð, en gegn því feiknasterka liði mátti Dubrava sætta sig við tvö sannfærandi töp.

Enginn núverandi leikmanna Dubrava hefur hlotið náð fyrir augum Lino Cervar, þjálfara króatíska landsliðsins (og reyndar RK Zagreb þar að auki), en engu að síður er landsliðsmann að finna innan raða félagsins. Nánar tiltekið er um leikmann Króatíska landsliðsins í strandhandknattleik að ræða! Sá er Ivan Dumencic, leikstjórnandi Dubrava og markahæsti leikmaður liðsins í fyrri leik liðanna, en þar skoraði hann 9 mörk. Þar er á ferðinni klókur spilari, góð skytta og leikmaður sem okkar menn verða að hafa góðar gætur á annað kvöld.

Aðrir leikmenn sem létu á sér kræla í fyrri leik liðanna voru t.a.m. Grahovac-bræðurnir (eða ekki bræðurnir, ég bara veit það ekki) Domagoj og Nikola – sá fyrrnefndi markmaður, hinn síðarnefndi línumaður. Báðir tveir léku unglingalandsleiki fyrir hönd Króatíu, og vann Domagoj til silfurverðlauna á HM U-19 ára landsliða í Ungverjalandi árið 2013. Þar var hann samherji Josip Juric-Grgic, sem spilaði stórt hlutverk í Íslandsmeistaratitli Vals árið 2017. Nikola er tröll að vexti, leikmaður fæddur 1998, sem skoraði 5 mörk síðastliðinn laugardag.

Glæsilegir! Lið FH að loknum leik FH og Dubrava í Zagreb, þann 1. september síðastliðinn / Mynd: Valli sport

FH

FH-liðið mætir, eins og allir vita, nokkuð breytt til leiks á þessu tímabili miðað við síðustu tvö þar á undan. Horfnir eru á braut leikmenn sem slegið hafa í gegn í FH-treyjunni, og hverra framganga hefur gefið þeim tækifæri á stærri sviðum. En maður kemur í manns stað.

Til liðs við góðan kjarna leikmanna hafa gengið fjórir strákar, sem gaman verður að fylgjast með vaxa og dafna í svörtu og hvítu. Í Birgi Má Birgissyni, Bjarna Ófeigi Valdimarssyni og Jóhanni Kaldal Jóhannssyni höfum við fengið þrjá efnilega leikmenn, sem meðal annars hafa leikið með unglingalandsliðum Íslands og gefst nú tækifæri til að sýna sig á stærra sviði en áður. Í Lazar Minic fáum við markvörð, sem tekið hefur stóra stökkið burt frá heimalandinu og leitast nú við að sanna sig á nýjum vettvangi.

Birgir Már og Bjarni Ófeigur leystu frumraun sína í FH-búningnum sérlega vel af hendi um síðustu helgi. Birgir Már, sem er hægri hornamaður, var markahæstur í liði FH ásamt félaga sínum á hægri vængnum, Einari Rafni Eiðssyni, en báðir skoruðu þeir 7 mörk í leiknum. Bjarni Ófeigur skoraði 5 mörk og spilaði þar að auki afar sterkan varnarleik.

Áfram verður gaman að fylgjast með framþróun ungra FH-inga, sem koma til með að fá stærri hlutverk en áður á þessu keppnistímabili. Leikstjórnandinn Einar Örn Sindrason og hornamaðurinn Jakob Martin Ásgeirsson skrifuðu báðir undir nýja samninga við FH í vikunni, og er það mikið gleðiefni. Báðir hafa verið viðriðnir unglingalandslið Íslands, og víst má telja að framtíð þeirra í leiknum sé björt sé rétt haldið á spilunum.

Spennandi tímabil er í vændum, kæru FH-ingar. Áfram heldur ævintýrið. Áfram fylgjumst við með stjörnum verða til! Verum öll með frá upphafi, og byrjum á því að hjálpa strákunum okkar að tryggja sér enn eitt einvígið við bestu lið Evrópulandanna á morgun.

Sjáumst í Kaplakrika kl. 19 annað kvöld. Keyrum þetta í gang!

Við erum FH!

Aðrar fréttir