Upphitun: Fram – FH, N1-deild karla

Upphitun: Fram – FH, N1-deild karla


FH-ingar spila sinn fyrsta leik eftir vetrarfrí á morgun, fimmtudaginn 3. febrúar, er þeir sækja Framara heim í Safamýri. Þar má búast við erfiðum leik, enda lið Framara vel mannað og ávallt erfitt heim að sækja. Þá verður einnig fróðlegt að sjá hvernig liðin koma undan vetrarfríinu, en síðustu keppnisleikir liðanna tveggja fóru fram í lok desember.

Fram
Framarar sitja í 2. sæti N1-deildarinnar með 16 stig, þremur stigum á eftir toppliði Akureyrar en tveimur stigum á undan FH-ingum. Þeir hafa spilað 11 leiki, unnið átta þeirra en tapað þremur. Markahlutfall þeirra er það besta í deildinni, eða +55.

Á þessu tímabili hafa Framarar leikið vel. Sóknarlega séð eru þeir frábærir, en þeir hafa skorað liða mest í deildinni á þessu tímabili. Þar að auki eru þeir nokkuð sterkir varnarlega séð og eiga flottan markmann í Magnúsi Gunnari Erlendssyni. Þeirra helstu leikmenn eru m.a.s. Haukamaðurinn Einar Rafn Eiðsson (hægri hornamaður sem skoraði 12 mörk í síðustu viðureign liðanna í deildinni), Jóhann Gunnar Einarsson og Róbert Aron Hostert, svo einhverjir séu nefndir. Þeirra helsti lykilmaður er þó Halldór Jóhann Sigfússon, lunkinn leikstjórnandi sem stýrir leik liðsins eins og herforingi. Klárlega maður sem þarf að stoppa ef sigur á að nást gegn Frömurum.

Fyrri leikir liðanna
Í vetur hafa lið FH og Fram mæst tvisvar, einu sinni í deild og einu sinni í deildarbikar. Deildarleikur liðanna fór fram í Kaplakrika þann 14. nóvember síðastliðinn, en þar unnu Framarar 33-38 sigur. Staðan var 15-17 í hálfleik. Leikur liðanna í undanúrslitum deildarbikarsins fór hins vegar fram í íþróttahúsinu við Strandgötu þann 27. desember síðastliðinn, en þar hefndu FH-ingar fyrir sig og unnu öruggan sigur, 40-31. Framarar hafa því harma að hefna og munu eflaust mæta grimmir til leiks.


Baldvin Þorsteinsson verður í eldlínunni í Safamýrinni á morgun

FH
FH-ingar sitja fyrir leikinn í 3. sæti N1-deildarinnar með 14 stig, tveimur stigum á eftir liði Fram í 2. sætinu en stigi á undan Haukum sem sitja í 4. sætinu. FH-ingar hafa unnið 7 leiki en tapað fjórum leikjum. Markahlutfall FH-inga er +19.

Fróðlegt verður að sjá hvernig lið FH-inga kemur undan jólafríinu þetta árið, en þeir héldu inn í jólafríið á besta mögulegan máta með því að vinna deildarbikarinn eftir sigur á Akureyri í úrslitaleik. Í því móti léku FH-ingar gríðarlega vel, bæði varnarlega og sóknarlega, og vonar undirritaður að það haldi áfram á nýju ári. FH-ingar eru sem fyrr gríðarlega vel mannaðir og eiga á góðum degi að geta unnið öll lið deildarinnar. Til þess þurfa þeir þó að leika góðan varnarleik og agaðan sóknarleik – einmitt það sem lukkaðist svo vel í deildarbikarnum.


FH-ingar unnu deildarbikarinn, en þar mættu þeir Frömurum í undanúrslitum.

Við viljum hvetja alla FH-inga til að flykkjast í Safamýrina á morgun og styðja við bakið á strákunum. Síðast þegar liðin mættust á heimavelli Fram voru FH-ingar í miklum meirihluta og stemningin var ógleymanleg. Það væri því ekki úr vegi að endurtaka leikinn. Leikurinn hefst kl. 19:30.

Við erum FH!

Aðrar fréttir