Upphitun: Fram – FH, N1-deild karla

Upphitun: Fram – FH, N1-deild karla

Í kvöld leikur FH gríðarlega mikilvægan leik í N1-deild karla í handbolta. Liðið fer þá í heimsókn í Safamýrina og leikur gegn heimaliði Fram. Vinni FH leikinn tryggja þeir sér 2. sætið í deildinni og þar með fleiri heimaleiki í 3. umferð deildarkeppninnar, m.a.s. gegn liðunum í 3. og 4. sæti. Það er því gríðarlega mikilvægt að vinna sigur í þessum leik en það mun þó ekki verða auðvelt, þar sem að Framarar hafa farið batnandi að undanförnu.


Framarar eru á botni deildarinnar, en
skjótt skipast veður í lofti á litilli eyju í
Norður-Atlantshafi.


Fram
Lið Framara er í botnsæti deildarinnar með 3 stig, 2 stigum á eftir liði Stjörnunnar. Þeir hafa unnið einn leik í vetur, gert eitt jafntefli og tapað 11 leikjum.

Framarar hafa í vetur leikið undir getu og verið á botni deildarinnar frá því í fyrstu umferð. Liðið missti fjölda lykilleikmanna frá sér fyrir tímabilið og hafa síðan þá ekki virkað sannfærandi. Þeir hafa þó sótt í sig veðrið síðan þá, góðir leikmenn snéru til baka í herbúðir liðsins eftir „atvinnumennsku“ og hafa styrkt liðið mjög. Náðu Framarar m.a.s. jafntefli gegn liði Vals í leik sem að þeir hefðu átt að vinna. Síðasti leikur Framara endaði þó með tapi, en það var á Akureyri gegn liði heimamanna.

Síðasti leikur liðanna
Það er þó á hreinu að lið Framara er sýnd veiði en ekki gefin fyrir lið FH, og ekki skal gleyma síðasta leik liðanna sem að FH vann með naumindum. Sá leikur var leikinn í Krikanum þann 26. nóvember síðastliðinn. Þar skildi á milli vítakast Bjarka Sigurðssonar í blálokin, en í leiknum hafði Fram haft yfirhöndina lengi vel. FH vann þó sigur að lokum, 25-24.


Eðalrauðvínið Bjarki Sig skoraði sigurmarkið í síðasta leik liðanna.

FH
Lið FH situr í 2. sæti N1-deildarinnar með 17 stig eftir 13 leiki, 3 stigum á eftir liði Hauka sem að á leik til góða. Liðið hefur unnið 8 leiki, gert 1 jafntefli en tapað 4 leikjum.

Síðasti leikur FH-liðsins var gegn Stjörnunni í Kaplakrika þann 22. febrúar. Þar vann lið FH sigur, 25-22, eftir virkilega kaflaskiptan leik. Liðið spilaði oft á tíðum fínan flottan handbolta en datt þar á milli niður í fáránlega slaka kafla, eitthvað sem að má ekki gerast í kvöld.  Ætli liðið sér að sigra í kvöld verða þeir að eiga góðan leik, Framarar eru að berjast fyrir lífi sínu og koma vafalaust til með að selja sig dýrt til að ná í eitt stig, ef ekki tvö. Því þurfa FH-ingar að vera góðir í vörn jafnt og sókn.

Við viljum hvetja alla FH-inga til að rúlla í Reykjavíkina að hvetja okkar menn í baráttunni um 2. sætið. Leikurinn hefst kl. 19:30 og er eins og áður sagði í íþróttahúsi Framara í Safamýri. Áfram FH!

Aðrar fréttir