Upphitun: Stjarnan U – FH, föstudaginn 12. október kl. 20:00

Stelpurnar okkar eiga leik í 4. umferð Grill 66 deildarinnar annað kvöld, og er nú komið að föstudagslangferð. Leiðin liggur í Garðabæ, þar sem FH-liðið mætir Stjörnunni U í leit að þriðja sigri liðsins í röð.

Ungmennalið Stjörnunnar hefur ekki farið vel af stað á þessu tímabili, og er án stiga eftir tvo stóra tapleiki í fyrstu tveimur leikjum sínum. Fyrsta leik liðsins, gegn Fylki, lauk með 17 marka tapi og eftir því fylgdi 9 marka tapleikur úti á Seltjarnarnesi, gegn Gróttu.

Fjórir þeirra leikmanna sem komið hafa við sögu hjá Stjörnunni U á þessu tímabili náðu leik með meistaraflokki Stjörnunnar í Olísdeildinni í fyrra, en 7 leikmenn hafa náð þeim áfanga í ár (þar af þrír markmenn). Sem dæmi má nefna, að Freydís Jara Þórsdóttir – markahæsti leikmaður Stjörnunnar U með 7 mörk í 2 leikjum – hefur á þessu tímabili spilað 3 leiki og skorað 8 mörk með aðalliði félagsins, þar af komu tvö í fyrsta sigurleik Stjörnunnar síðastliðinn þriðjudag. Annað dæmi er Dagný Huld Birgisdóttir, sem leikið hefur einn leik með Stjörnunni U án þess að skora mark, en hefur að sama skapi skorað 11 mörk í 4 leikjum með aðalliðinu – án þess þó að eitt þeirra kæmi í sigurleiknum gegn HK.

Aníta Theodórsdóttir gekk til liðs við FH frá Stjörnunni í sumar, og hefur komist hratt og vel inn í hlutina. Hún er næstmarkahæst leikmanna liðsins til þessa – á eftir sveitungi sínum, Ragnheiði / Mynd: Brynja T.

Hvaða þýðingu hefur þetta með tilliti til þess, hvaða liði verður stillt upp gegn FH-stelpum annað kvöld? Það er ekki gott að segja. Þarna virðst vera rótering. Fær Dagný Huld stærra hlutverk með U-liðinu gegn FH, þar sem hún virðist hafa haft hægt um sig gegn HK, og verður Freydís Jara með af fullum krafti úr því hún spilaði? Þá hafa þeir markverðir, sem lið Stjörnunnar U hefur teflt fram til þessa, mátt taka á sig stærri ábyrgð í aðalliði Stjörnunnar vegna höfuðmeiðsla Guðrúnar Óskar Maríasdóttur. Hvaða áhrif hefur það á U-liðið? Vandi er um slíkt að spá.

En það er víst sama hvernig liði verður stillt upp í bláum búningum annað kvöld, okkar stelpur munu þekkja vel til þeirra sem það skipa. Þá sérstaklega sumar betur en aðrar.

Ástríður Þóra gekk sömuleiðis til liðs við okkur frá Garðbæingum í sumar, og hefur staðið vaktina í rammanum með prýði / Mynd: Brynja T.

Þær Andrea Valdimarsdóttir, Aníta Theodórsdóttir, Ástríður Þóra Viðarsdóttir og Ragnheiður Tómasdóttir gengu allar til liðs við FH í sumar frá uppeldisfélagi sínu, Stjörnunni, og hafa reynst FH-liðinu mikil styrking. Allar áttu þær leiki með aðalliði Stjörnunnar á síðasta tímabili – Andrea þó fæsta, þar sem hún kom að láni til FH um mitt tímabil. Þeim verða því flest, ef ekki öll, andlit kunnug í röðum gestanna.

Annars gildir það nú, sem áður, að það þýðir ekki að einblína á andstæðinginn, heldur er það okkar eigin leikur sem skiptir mestu máli. Hann hefur verið á uppleið. Stelpurnar áttu allar flottan leik gegn Fjölni í síðustu viku, og verðskulduðu sigurinn þar. Ekki veit ég, hvað gæti verið betra veganesti í Mýrina. Það skemmir varla fyrir, að Garðbæingarnir í röðum okkar vilja eflaust ólmir sýna sig og sanna á sínum gamla heimavelli.

Meira svona, takk! / Mynd: Brynja T.

Meira af því sama ætti að vera góð uppskrift að sigri annað kvöld. Samskonar markvarsla og hefur fengist í síðustu tveimur leikjum, álíka margar löglegar stöðvanir og blokkeringar í vörninni, hraðaupphlaup í sama mæli, sömu yfirvegun í uppstillta sóknarleiknum. Þá hefst þetta.

Sjáumst í Mýrinni annað kvöld kl. 20. Næg bílastæði, nægilega þægileg sæti í stúkunni, næg ástæða til að láta sjá sig. Nógu andskoti gaman er að fylgjast með stelpunum okkar!

Við erum FH!

– Árni Freyr

 

Aðrar fréttir