Varið í Víkinni | Markvarslan í aðalhlutverki í stórsigri stelpnanna okkar

Stelpurnar okkar gerðu góða ferð í Fossvog í gærkvöldi, þar sem að þær mættu botnliði Víkinga í 14. umferð Grill 66 deildarinnar. Þægilegur 13 marka sigur varð útkoman í leik, þar sem FH-stelpur höfðu yfirhöndina allt frá upphafi.

Þetta var ekki besti leikur stelpnanna í vetur, en þær gerðu svo sannarlega nóg til að verðskulda öruggan sigur. Varnarleikurinn var tiltölulega þéttur, sérstaklega framan af leik, og sóknin var ágæt. Þegar líða fór á fyrri hálfleikinn klúðruðust þó einhverjar sóknir, sem kom í veg fyrir að munurinn varð meiri en raun bar vitni. Munurinn í hálfleik var 9 mörk, þar sem FH-liðið hafði þanið netmöskvana 12 sinnum en Víkingar (eins og glöggir hafa nú séð) einungis þrisvar. Þrisvar, segi ég.

Víti, hornafæri, skot að utan. Það virtist ekki skipta máli hvers kyns skot Hrafnhildur Anna fékk á sig – hún varði þetta allt saman. / Mynd: Brynja T.

Varnarleikur FH-liðsins var þéttur, en ekki sem steyptur veggur. Víkingar komu sér í færi, fengu víti og annað slíkt. Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir í marki FH-liðsins varði einfaldlega allt sem á markið kom. 14 skot tók hún í fyrri hálfleiknum einum og sér, sem er hlutfallsmarkvarsla upp á 82,3%. Geri aðrir betur. Hún stóð að lokum uppi með 22 varin skot, eða 61,1% markvörslu. Óumdeilanlega besti leikmaður vallarins í gærkvöldi.

Áfram mallaði leikurinn eftir hálfleik, og bættu FH-stelpur aðeins við muninn áður en yfir lauk. Víkingar styrktust eftir því sem á leið, fundu í einhverjum mæli leiðina framhjá Hrafnhildi Önnu í markinu en komust aldrei nær FH-liðinu því ávallt svöruðu okkar stelpur hinum megin á vellinum. Lokatölur voru 14-27 FH í vil, og þannig er 2. sætið okkar áfram. Selfyssingar eiga hins vegar leik til góða, á mánudag gegn Fylki, og geta þar minnkað muninn á liðunum í 1 stig. Baráttan er hörð.

Fanney Þóra átti flottan leik, áður en hún varð fyrir meiðslum / Mynd: Brynja T.

Markahæst í liði FH að þessu sinni var Fanney Þóra Þórsdóttir, en hún skoraði 6 mörk og stóð vörnina vel áður en hún neyddist til að fara út af vegna meiðsla þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum. Ragnheiður Tómasdóttir var sem fyrr atkvæðamikil með 5 mörk skoruð, og þá bættu þær Andrea Valdimarsdóttir og Aníta Theodórsdóttir við 4 mörkum hvor.

Næsti leikur stelpnanna okkar er laugardaginn 1. febrúar, en þá mæta Fylkiskonur í heimsókn í Krikann. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Mörk FH: Fanney Þóra Þórsdóttir 6, Ragnheiður Tómasdóttir 5, Andrea Valdimarsdóttir 4, Aníta Theodórsdóttir 4, Britney Cots 3, Arndís Sara Þórsdóttir 2, Emilía Ósk Steinarsdóttir 2, Embla Jónsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 22 (61,1%).

Aðrar fréttir