Viðtal – Elvar Erlingsson

Viðtal – Elvar Erlingsson

Við fáum hér í okkar annað viðtal í vetur, Elvar nokkurn Erlingsson mfl þjálfara, margreyndan unglinga- og meistaraflokksþjálfara. Elvar hefur marga fjöruna sopið á sínum ferli, var snjall og lipur miðjumaður hjá Breiðabliki og gerði svo garðinn frægan sem markmaður þar í fótbolta. Spilaði svo og kenndi Austfirðingum grasspyrnu en hefur svo verið að þjálfa handbolta, mest hjá yngri flokkum FH. Hann var við hlið Kristjáns Arasonar í þjálfaratíð hans ‘97-‘99, en var svo aðalþjálfari tímabilið ‘99-‘00. Hann ákvað svo að skipta um umhverfi, var hjá mfl kv liði Vals en kom svo aftur heim,var yfirþjálfari í 4 ár og gerði unglingaflokk að Íslandsmeisturum í fyrra, en er nú aftur orðinn þjálfari meistaraflokks karla.
En byrjum á týpískri en nauðsynlegri spurningu Elvar. Hvernig líst þér á veturinn, hópinn, umgjörð og klúbb?

Bara ljómandi vel, höfum sett markið á sæti í úrvalsdeild næsta vetur og tel ég það raunhæft markmið. Ný stjórn er tekin við og hafa þeir sama metnað og við til góðra verka, en góð verk vinnast oft hægt og þarf því ný stjórn sinn tíma. Hópurinn er fínn, fullt af ungum og efnilegum strákum sem hafa eldri og reyndari menn sér við hlið. Klúbburinn er frábær og eru menn alltaf tilbúnir að fórna sér í nafni félagsins.

Já þannig að þú ert bjartsýnn… en hvaða möguleika eigum við þá í vetur og hvert er langtímamarkmið þitt með liðið?

Miði er möguleiki eins og einhver góður maður sagði og maður vinnur ekki nema spila með. Langtímamarkmið er að búa til lið í efstu deild sem berst um titla, lið sem endurnýjar sig og hjálpa leikmönnum að verða betri spilarar og betri persónur.

Stefnir hátt eins og vera ber í þessu félagi… En ef þú gætir sagt okkur í nokkrum orðum muninn á að þjálfa FH liðið í dag, leikmenn 70-80% 20 ára og yngri, eða liðið frá 98-00 þar sem voru þungavigtarmenn eins og Stjáni Ara, Gunni Beini og Dáni Þórðar?

Held að allur samanburður sé ósanngjarn vegna þess að ytri aðstæður, og á ég þar aðallega við samfélagslegar breytingar, eru ansi miklar. Á árum áður var ekki svo margt í boði eins og er í dag og þar af leiðandi voru leikmenn kannski með hugann meira við boltann. Í dag snýst þetta meira um að halda mönnum við efnið. Gömlu jaxlarnir sem til voru eru horfnir á braut og finnast varla í dag, en aftur á móti má segja að leikmenn eru kannski hæfileikaríkari í dag vegna framfara í þjálfun.

En að öðru… nú ert þú annálaður frasakóngur eins og margir góðir þjálfarar hafa verið, nefni dæmi Guðjón Þórðarsson, og þú notar þá óspart í þínu starfi… Því fleiri frasar, því meiri árangur? 

Nei ég held að það sé ekki hægt að tengja það saman. Þetta er nú ómeðvitaður gjörningur hjá mér og ég æfi þá nú ekki sérstaklega né ákveð þá fyrirfram.

Hverjar eru þínar fyrirmyndir í þjálfarastarfinu?

Hef nú reynt að skapa mér eigin línu eins og flestir þjálfarar gera en óneitanlega litast menn alltaf ef einhverjum sem þeir telja farsælan og hafa eitthvað vitrænt fram að færa. Ég var svo heppinn að mínu mati að hafa fengið að starfa með Boris gamla í 4 ár og tel ég að það hafi verið gæfuspor fyrir mig.

Ég skil… en hver er lykillinn að því að við komumst upp og verðum meðal þeirra bestu og hvað þarf að gera svo að við höldum okkur áfram þar?

Vinna alla leikina og halda svo áfram að vinna leiki. Að öllu gamni slepptu þá þarf að hafa skýr markmið, hugsa jákvætt og sjá fyrir sér góða hluti gerast. Það sem þú hugsar það vex.

Aðrar fréttir